Mikill fjöldi fólks lagði leið sína í íþróttahúsið við Vesturgötu í gær þegar ÍA og íþróttahúsið blésu til sameiginlegrar afmælishátíðar þar sem fagnað var 70 ára afmælis íþróttabandalagsins og 40 ára afmælis íþróttahússins.
Aðildarfélög ÍA buðu gestum að skoða þá aðstöðu sem þau hafa í húsinu og gáfu öllum kost á að reyna sig í karate, klifri, skotfimi, hnefaleikum, kraftlyftingum, badminton, fimleikum, körfubolta, boccia og keilu. Nokkur félög voru með sýningu á sínum greinum og má þar nefna dans, knattspyrnu og fimleika en auk þess sem hægt var að prófa golfhermi og mæla skothraða í knattspyrnu. Félögin nýttu um leið tækifærið til að kynna starfsemi sína og mátti m.a. fræðast um hestamennsku, siglingar og fá sundæfingu og ÍA sundhettu að gjöf frá sundfélaginu.
Myndasíða Skagafrétta frá afmælishátíðinni – myndirnar tók Guðmundur Bjarki Halldórsson
Myndasíða Jónasar Ottósonar frá afmælishátíðinni
Í erindi Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra Akraness á afmælishátíðinni kom m.a. fram að í tilefni 70 ára afmælis ÍA hafi bæjarstjórn fært Íþróttabandalaginu að gjöf 500.000 kr. til eflingar Minningarsjóðs Guðmundar Sveinbjörnssonar, sem styrkir íþróttalíf á Akranesi. Í máli hennar koma einnig fram að bygging íþróttahússins haf verið mikið stórvirki á sínum tíma sem nýst hafi gríðarlega vel en að nú sé á ný farið að huga að næstu framkvæmdum á íþróttasviðinu eftir nokkurra ára hlé.
Helga Sjöfn Jóhannesdóttir formaður Íþróttabandalags Akraness minnti á hið mikla gildi sem ÍA hefur í samfélaginu á Akranesi með bráðum 19 aðildarfélög og á þriðja þúsund iðkendur. Leitun sé að félagi með jafn fjölbreytta og öfluga starfsemi og hjarta samfélagsins á Akranesi og ÍA slái í takt. Mikilvægt sé að halda merki ÍA á lofti og sem lið í því að gera bandalagið sýnilegra hafi þjónustumiðstöð ÍA verið flutt í endurbætta aðstöðu í íþróttahúsið við Vesturgötu. Hún minnti einnig á einkunnarorð ÍA sem eru:
- Að koma saman er byrjun
- Að vera saman eru framfarir
- Að vinna saman er árangur
Svona vel heppnuð afmælishátíð er einmitt grundvölluð á samstarfi fjölmargra aðila og félaga og er forsvarsmönnum aðildarfélag ÍA og starfsmönnum íþróttamannvirkja Akraneskaupstaðar færðar bestu þakkir fyrir frábært samstarf.
Gul og glöð eru okkur allir vegir færir.