Annað mót vetrarins var haldið í Klifurhúsinu í Reykjavík. Fjölmargir ungir klifrarar mættu til þátttöku og áætlað var að um 90 klifrarar hafi tekið þátt. Nálægt 20 klifrarar frá ÍA á aldrinum 6-16 ára mættu til leiks og það var virkilega gaman að sjá svona mörg ÍA merki í húsinu. Krakkarnir stóðu sig mjög vel og tókust á við erfiðar leiðir af áhuga og krafti. Forseti Íslands, Guðni TH, var á svæðinu og hafði orð á því hve gaman það væri að sjá svona mikið af ungum krökkum í þessari nýju íþróttagrein.
Í unglingaflokki kepptu þær Brimrún Eir og Ástrós Elísabet. Brimrún Eir landaði öðru sæti á mótinu en Ástrós Elísabet hafnaði í því fjórða. Eftir tvo mót er Brimrún Eir í öðru sæti í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn og því spennandi seinni helmingur mótaraðarinnar framundan á næsta ári.
Íslandsmeistaramót unglinga í línuklifri verður haldið í Björkinni í Hafnarfirði 2. desember og ÍA sendi sínar stelpur til þátttöku í fyrsta skipti á slíkt mót. Það eru því stífar æfingar framundan fyrir þær og óskum við þeim góðs gengis.