ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

#metoo frá ÍSÍ

#metoo frá ÍSÍ

02/02/18

#2D2D33

Kæru félagar!
Þann 11. janúar sl. birtust yfirlýsingar kvenna í íþróttum um kynferðislega áreitni og ofbeldi
og aðra óviðeigandi framkomu í þeirra garð. Íþrótta- og Ólympíusamband ÍSÍ sendi frá sér
yfirlýsingu vegna málsins þann 12. janúar sl. Yfirlýsingin í heild sinni fylgir bréfi þessu til
upplýsingar en í stuttu máli þá fordæmir ÍSÍ með öllu allt ofbeldi í starfsemi
íþróttahreyfingarinnar.
Skilaboð ÍSÍ eru skýr: Ofbeldi verður ekki liðið!

Síðan yfirlýsingin kom fram hefur margt verið gert og á næstu vikum og mánuðum er
ýmislegt á döfinni til að bæta hreyfinguna og fækka, eins og mögulegt er, áhættuþáttum
ofbeldis í starfsemi hreyfingarinnar. Það sem þegar hefur verið gert af hálfu ÍSÍ er:
 ÍSÍ hefur boðið þolendum úr íþróttahreyfingunni, sem stigið hafa fram og skýrt frá
ofbeldi í sinn garð, aðstoð fagaðila til að vinna úr sínum málum.
 ÍSÍ hefur haldið fundi, m.a. með sérsamböndum ÍSÍ, tengiliðum #metoo hóps
íþróttakvenna, lögfræðingum, fagaðilum og mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
 Fræðsluefni á heimasíðu ÍSÍ varðandi málefnið hefur verið gert aðgengilegra með því
að setja allt undir einn hnapp á forsíðunni. Ekki þarf að taka það fram að allt
fræðsluefni sem þar er að finna má hreyfingin nota í sínu starfi og til birtingar á sínum
miðlum.
 ÍSÍ hefur leitað til systursamtaka á Norðurlöndum um efni, til að flýta fyrir útgáfu nýs
fræðsluefnis um málefnið. Unnið hefur verið að því að þýða og staðfæra myndefni og
texta.
 ÍSÍ hefur tilnefnt fulltrúa sinn í starfshóp mennta- og menningarmálaráðuneytisins en
hópurinn á að vinna hratt og örugglega að útfærslum á aðgerðum til að koma í veg
fyrir kynferðislega og kynbundna áreitni, ofbeldi og einelti.
Þó að íþróttahreyfingin sé vel sett með fræðsluefni til forvarna gegn kynferðislegu ofbeldi og
áreiti þá er alltaf hægt að gera betur og til þess stendur okkar metnaður. Framundan er mikil
vinna sem meðal annars felst í eftirfarandi verkefnum sem öll beinast að því að læra af þeim
reynslusögum sem fram hafa komið:
 Vinna við yfirferð laga ÍSÍ, reglugerða og fræðsluefnis.
 Útgáfa nýs fræðsluefnis, bæði í textaformi sem og myndefni, sem ÍSÍ hefur fengið til
notkunar frá systursamtökum sínum á Norðurlöndum.
 Markviss birting fræðsluefnis um málefnið á samfélagsmiðlum og heimasíðu ÍSÍ sem
einnig verða sendir sambandsaðilum til birtingar á þeirra miðlum.
 Fara yfir efni þjálfaramenntunar á námskeiðum ÍSÍ.
 Fara yfir kröfur til Fyrirmyndarfélaga og Fyrirmyndarhéraða ÍSÍ.
 Halda fræðslufundi í öllum landsfjórðungum með aðstoð fagaðila um málefnið.
 Skoða með sérsamböndum ÍSÍ hverja íþróttagrein fyrir sig til að kortleggja
áhættuþætti í starfinu.
 Vinna að verkferlum um tilkynningar brota og aðstoð við þolendur, í samstarfi við
fagaðila, til að tryggja rétt viðbrögð íþróttahreyfingarinnar þegar upp koma mál af
þessu tagi.
Vinna er þegar hafin við flest af ofantöldum verkefnum.
Við viljum, með bréfi þessu, upplýsa ykkur um það helsta sem nú er unnið að af hálfu ÍSÍ
varðandi þessi mál.

Þegar svona mikilvægt málefni kemur upp í stórri og víðfemri hreyfingu þá þarf að vanda til
verka. Við þurfum að sýna ákveðni en yfirvegun, bæði til að vernda iðkendur og eins til að
standa vörð um það góða starf sem unnið er í hreyfingunni okkar. Eitt ofbeldisverk innan
hreyfingarinnar er einu of mikið og er algerlega óásættanlegt fyrir okkur öll. Við megum
heldur ekki missa sjónar á því að innan raða íþróttahreyfingarinnar er, með örfáum
undantekningum, gott fólk sem tugþúsundum saman lætur gott af sér leiða og á heiður og
þakklæti skilið fyrir sitt framlag til langstærstu fjöldahreyfingar landsins.
Við hvetjum ykkur öll til að vinna með okkur að bættri menningu í íþróttahreyfingunni og
huga að því að fræða alla þá sem koma að íþróttastarfinu með einum eða öðrum hætti um
hegðunarviðmið og siðareglur hreyfingarinnar. Gerum gott starf enn betra, þannig að allir
sem iðka og starfa í hreyfingunni geti notið þess að vera í uppbyggilegu og öruggu umhverfi.
Gætum hver annars og höldum vöku okkar í allri okkar starfsemi.
Ef þið hafið ábendingar, tillögur eða efni sem þið teljið að eigi erindi til okkar í tengslum við
þá vinnu sem framundan er, vinsamlegast sendið það til Ragnhildar Skúladóttur, sviðsstjóra
Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ, á netfangið ragnhildur@isi.is.
Með vinsemd og virðingu,

ÍÞRÓTTA- OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS

 

Lárus L. Blöndal

forseti

Líney Rut Halldórsdóttir

framkvæmdastjóri

Edit Content
Edit Content
Edit Content
Edit Content