Meistaraflokkur karla mætti Fram í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins sem fram fór við erfiðar aðstæður á Norðurálsvelli.
Fram byrjaði mun betur í leiknum og strax á áttundu mínútu skoraði Guðmundur Magnússon eftir misskilning í vörn ÍA. Skagamenn voru lengi í gang í leiknum og sköpuðu sér fá markverð færi. Það voru Framarar sem áttu hættulegri færi og þeir bættu við marki á 39. mínútu þegar Guðmundur Magnússon bætti sínu öðru marki við.
Á 43. mínútu leiksins var brotið á Þórði Þorsteini Þórðarsyni innan vítateigs og vítaspyrna réttilega dæmd. Úr henni skoraði Garðar Gunnlaugsson af öryggi. Það stóð þó ekki lengi því Skagamenn gerðu sig seka um klaufaskap í vörninni og Alex Freyr Elísson skoraði fyrir Fram í uppbótartíma. 1-3 fyrir Fram í hálfleik.
Í seinni hálfleik reyndi ÍA að skapa sér marktækifæri en það gekk frekar illa gegn vel skipulögðu liði Fram sem beitti eitruðum skyndisóknum en náðu ekki að nýta nokkur góð færi. Skagamenn áttu erfitt uppdráttar framan af seinni hálfleik og ekki leit það betur út á 81. mínútu þegar Hilmar Halldórsson var rekinn útaf með sitt annað gula spjald, sem var ansi strangur dómur.
En undir lok leiksins hófst einhver merkasta endurkoma í bikarnum í mörg ár. Á 87. mínútu skoraði Garðar Gunnlaugsson með góðum skalla eftir aukaspyrnu frá Ólafi Val Valdimarssyni. ÍA fór nú að sækja af krafti og á 93. mínútu var réttilega dæmd vítaspyrna þegar Garðar Gunnlaugsson var felldur í vítateig Fram. Úr spyrnunni skoraði Garðar Gunnlaugsson af öryggi og Kristófer Jacobson Reyes var rekinn af leikvelli fyrir leikbrotið með sitt annað gula spjald. Þar með voru bæði lið einum leikmanni færri.
Það var svo á á 94. mínútu sem endurkoma ÍA var fullkomnuð þegar Arnar Már Guðjónsson átti frábæra stungusendingu innfyrir vörn Fram þar sem Ólafur Valur Valdimarsson var einn á auðum sjó og skoraði af öryggi. Framarar náðu ekki að koma til baka og Skagamenn unnu því þennan bikarleik 4-3 þar sem lokamínúturnar voru vægast sagt æsispennandi.
Að vanda var valinn maður leiksins úr Skagaliðinu og að þessu sinni varð Arnar Már Guðjónsson fyrir valinu. Hann fékk að launum gjafabréf fyrir tvo frá veitingastaðnum UNO.
Næsti leikur er svo gegn Grindavík í Pepsi-deildinni á Norðurálsvelli mánudaginn 22. maí kl. 19:15.