HVAÐ ER Í BOÐI

VALMYND

LÖG ÍA

  • Lög Íþróttabandalags Akraness.

I. kafli

Heiti og tilgangur

1.grein
Íþróttabandalag Akraness (ÍA) er bandalag íþróttafélaga á Akranesi, stofnað 3. febrúar 1946. ÍA starfar samkvæmt íþróttalögum nr. 64, frá 12. júní 1998, lögum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og lögum Ungmennafélags Íslands.

Lögheimili Íþróttabandalags Akraness og varnarþing er á Akranesi.

2. grein
Tilgangur ÍA er eftirfarandi:

a) Að efla, samræma og styðja við íþróttastarfsemi á Akranesi, m.a. með umsögnum um íþróttamál og aðkomu að ákvörðunum um opinber fjárframlög til íþrótta, byggingu eða endurbótum íþróttamannvirkja á Akranesi og skipulagningu íþróttasvæða.
b) Að gæta hagsmuna íþróttahreyfingarinnar á Akranesi og vera málsvari hennar gagnvart opinberum aðilum, innan héraðs og utan.
c) Að annast samstarf og samskipti við bæjarstjórn Akraneskaupstaðar um skipulag, stefnumótun og stuðning við íþróttamál.
d) Að stjórna sameiginlegum íþróttamálum á Akranesi í samræmi við íþróttalög, lög ÍSÍ og lög UMFÍ.
e) Að varðveita og skipta á milli aðildarfélaganna þeim fjármunum sem ÍA hefur yfir að ráða eða er falið að ráðstafa.
f) Að staðfesta lög aðildarfélaga, halda utan um staðfest lög þeirra og skila yfirliti til ÍSÍ yfir þau í lok hvers árs.
g) Að tilkynna til ÍSÍ, UMFÍ og viðkomandi sérsambandi stofnun nýrra félaga.
h) Að fylgjast með því að starfsemi aðildarfélaga fari fram skv. gildandi lögum þeirra og íþróttahreyfingarinnar í heild sbr. 44.2 grein laga lög ÍSÍ, h-liður.
i) Að hafa forystu um sameiginleg hagsmuna- og félagsmál og að efla samvinnu íþróttafélaga á Akranesi og iðkenda þeirra svo og að vera fulltrúi aðildarfélaganna gagnvart ÍSÍ og UMFÍ.
j) Að annast rekstur sameiginlegra íþróttamannvirkja þar sem það á við.
k) Að annast skýrslugerð varðandi íþróttamál í héraði.
l) Að stuðla að fræðslu og bættri lýðheilsu meðal íþróttaiðkenda og íbúa í héraði.
m) Að hafa eftirlit og þar með talið úrskurðarvald um atriði sem varða framkvæmd og skipulag íþróttamála á starfssvæði ÍA.

II. kafli

Réttindi og skyldur

3. grein
Öll félög á Akranesi sem hafa íþróttir á stefnuskrá sinni, hafa rétt til að gerast aðilar að Íþróttabandalagi Akraness, enda fullnægi þau þeim skilyrðum sem á hverjum tíma gilda um frjálsa íþróttastarfsemi samkvæmt lögum og skilgreiningu ÍSÍ og UMFÍ.

4. grein
Óski félag að gerast aðili að ÍA, skal það senda stjórn ÍA umsókn sína. Umsókninni skal fylgja skýrsla um stofndag og ár, lög félagsins og skipan stjórnar.
Þegar félag hefur uppfyllt skilyrði laganna og stjórn ÍA hefur samþykkt inngöngu þess, fær félagið full réttindi en staðfesta þarf inngöngu félagsins á ársþingi ÍA með einföldum meirihluta viðstaddra atkvæðisbærra fulltrúa.
Stjórn ÍA hefur heimild til þess að setja reglur eða ákvæði um aðlögun félags varðandi styrki, úthlutanir tíma í íþróttamannvirkjum og fleira.
Vanræki aðildarfélag að halda aðalfund fyrir tilsettan tíma, hefur stjórn ÍA, heimild til að láta yfirfara bókhald, skoða reikninga, og boða til aðalfundar og annast framkvæmd hans.

Skilyrði aðildarfélags er að vera með virkt barna- og unglingastarf. Með virku barna og unglingastarfi er átt við:

  •         að sérstaklega sé boðið upp á aðstöðu og þjálfun fyrir alla aldurshópa á grunnskólaaldri og tekið þátt í opinberum mótum eða viðburðum í viðkomandi grein.

    ·       að boðið sé upp á sambærilega aðstöðu og þjálfun fyrir öll kyn

  •   að starfsemi allra aldurshópa sé í boði a.m.k. 6 mánuði á ári
  •          að innheimt séu æfinga- eða félagsgjöld af iðkendum
  •          að til sé skrá yfir iðkendafjölda í því skráningarkerfi sem Íþróttabandalagið býður uppá og er notað hverju sinni.

Undanþágur: 

·         Ef lög- og/eða reglugerðir hamla barna- og unglingastarf er veitt undanþága

·         Ef barna- og unglingastarf hafi verið reynt en ekki eftirspurn eftir slíku þá sé möguleiki á undanþágu, stjórn ÍA metur slíkt og þarf að samþykkja.

 

Siðareglur

·         Ef æft eða keppt er fyrir hönd ÍA  þarf að fara eftir siðareglum Íþróttabandalagsins bæði á æfingum og í keppni. 

5. grein
Íþróttafélög eða sérráð sem stofnuð eru, fara með stjórn einstakra íþróttagreina innan íþróttahéraðs Akraness.
Aðildarfélög ÍA skulu senda ársskýrslu og samþykkta ársreikninga til stjórnar ÍA eigi síðar en 15. mars ár hvert. Fyrir sama tíma skulu aðildarfélög hafa innt af hendi greiðslur til ÍA sem ákveðnar hafa verið á ársþingi.
Stjórn ÍA annast öll samskipti við ÍSÍ og UMFÍ, skýrslugerð og greiðslu lögmætra gjalda.

6. grein
Félagi má víkja úr ÍA um stundarsakir ef það brýtur gegn íþróttalögum, lögum ÍA, lögum ÍSÍ eða lögum UMFÍ.
Stjórn ÍA tekur ákvörðun um brottvikningu.
Félag sem missir réttindi sín innan ÍA öðlast þau ekki aftur fyrr en stjórn ÍA hefur samþykkt slíkt.

7. grein
Félag sem brýtur ítrekað eða alvarlega gegn íþróttalögum, lögum ÍA, lögum ÍSÍ, eða lögum UMFÍ, má vísa úr ÍA að fullu. Staðfesta skal brottvikningu félagsins á ársþingi ÍA með einföldum meirihluta viðstaddra atkvæðisbærra fulltrúa.

8. grein

Félög sem ekki skila ársskýrslu og samþykktum ársreikningi, eða greiða ekki lögboðin gjöld skulu missa atkvæðisrétt sinn á viðkomandi ársþingi.
Ítrekuð vanræksla á því að greiða lögboðin gjöld eða senda skýrslur varðar brottvikningu úr ÍA. Fyrst um stundarsakir, en loks að fullu, ef ekki er úr bætt.

III. kafli

Stjórnkerfi ÍA

9. grein
Ársþing ÍA fer með æðsta vald í málefnum ÍA, mótar stefnu í málefnum bandalagsins og setur nauðsynlegar reglur og reglugerðir.
Aukaársþing ÍA, sem boða má til samkvæmt 15. grein laganna.
Stjórn ÍA, sem skipuð er fimm fulltrúum og tveimur til vara sem kosnir eru á ársþingi, fer með æðsta vald í málefnum bandalagsins á milli ársþinga. Formaður ÍA má ekki vera formaður sérsambands, félags innan ÍA eða sérráðs.
Stjórn ÍA skal halda eigi sjaldnar en þrisvar á ári fundi með formönnum aðildarfélaga um málefni ÍA. Á formannafundi gerir stjórnin grein fyrir starfsemi sinni frá því að síðasti formannafundur var haldinn. Á fundi stjórnar með formönnum er heimilt að álykta um málefni sem varða íþróttahreyfinguna og gefa umsagnir um málefni eftir því sem nauðsyn krefur. Auk þess skal taka fyrir á formannafundi önnur mál, sem stjórnin eða aðildarfélögin telja nauðsynlegt að ræða. Stjórn ÍA boðar til formannafundar með a.m.k. viku fyrirvara ásamt dagskrá.
IV. kafli

Ársþing ÍA

10. grein
Ársþing ÍA, sem fer með æðsta vald í málefnum bandalagsins, skal halda árlega eigi síðar en 25. apríl. Til ársþings ÍA skal boða skriflega eða með rafrænum hætti með eins mánaðar fyrirvara.
Í fundarboði skal óskað eftir framboðum til stjórnar sem berast skulu eigi síðar en einni viku fyrir ársþing ÍA.
Ársþingið er löglegt ef löglega er til þess boðað.
Dagskrá ársþings, ársskýrsla og ársreikningur, ásamt upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir ársþingið skal senda öllum aðildarfélögum, sérráðum og öðrum er rétt eiga til þingsetu með eigi minna en einnar viku fyrirvara. Þingið skal móta stefnu ÍA, a.m.k. til næstu tveggja ára með því að ákveða þá málaflokka, sem leggja ber áherslu á í starfi bandalagsins.
Reikningsárið er almanaksárið.
Óski aðildarfélag eftir því að ákveðið málefni, sem samrýmist starfsemi ÍA, verði tekið fyrir á ársþinginu, skal ósk um slíkt komið á framfæri við stjórn ÍA eigi síðar en tveimur vikum fyrir ársþing.
Óski aðildarfélag eftir því að gera tillögu um lagabreytingu skal sú tillaga send stjórn ÍA eigi síðar en tveimur vikum fyrir ársþing ÍA. Stjórnin skal kynna tillöguna fyrir aðildarfélögunum jafnskjótt og tillagan berst.

11. grein
Ársþing ÍA er fulltrúaþing og hefur hvert aðildarfélag og sérráð innan ÍA rétt til að senda tvo fulltrúa til þingsins óháð félagafjölda þess. Auk þess kemur einn fulltrúi fyrir hverja 100 félagsmenn. Hámarksfjöldi fulltrúa félags skal vera 10 fulltrúar. Á ársþinginu skulu þingfulltrúar félaga afhenda kjörbréf sín frá viðkomandi félagi.
Stjórnarmenn í ÍA eru sjálfkjörnir þingfulltrúar með atkvæðisrétt, málfrelsi og tillögurétt.

12. grein
Kjörnir þingfulltrúar á ársþingi ÍA hafa málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt. Enginn fulltrúi má fara með meira en eitt atkvæði.
Tillögurétt og málfrelsi á ársþingi ÍA hafa fulltrúar í sérráðum á vegum ÍA og fulltrúar frá þeim landssamböndum sem ÍA er aðili að, svo og fulltrúar þeirra sérsambanda sem ÍA eða félög þess eru aðili að og fulltrúi Akraneskaupstaðar. Ennfremur fulltrúar nefnda sem kosnar eru á ársþingi ÍA.
Stjórn ÍA er einnig heimilt að bjóða sérstökum gestum til þingsins.

13. grein
Dagskrá ársþings ÍA skal vera þessi:

a) Þingsetning.
b) Lögð fram kjörbréf fulltrúa.
c) Kosning þingforseta og ritara.
d) Kosning þriggja fulltrúa í kjörbréfanefnd og aðrar starfsnefndir þingsins eftir því sem ákvörðun er tekin um hverju sinni.
e) Lögð fram ársskýrsla ÍA og ársreikningur. Umræður um ársskýrslu og ársreikninga og atkvæðagreiðsla.
f) Áætlun um starfsemi, rekstur og fjárfestingar komandi starfsárs. Umræður og atkvæðagreiðsla.
g) Tillögur um lagabreytingar ræddar og afgreiddar.
h) Lagðar fram aðrar tillögur sem borist hafa til stjórnar.
i) Álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla.
j) Kosning fimm fulltrúa í stjórn ÍA, formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega.
k) Kosning tveggja varafulltrúa í stjórn.
l) Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara.
m) Kosning fulltrúa á íþróttaþing ÍSÍ og á sambandsþing UMFÍ.
n) Kosning nefnda sem starfa skulu milli ársþinga, skv. nánari ákvörðun ársþings.
o) Tilnefning fulltrúa í sérráð, ef sérráð er starfandi.
p) Önnur mál.
q) Þingslit.

Stjórn ÍA ákveður hvort ársþingið standi í einn eða tvo daga, en þingfundur skal vera einn.
Í tengslum við ársþingið er heimilt að flytja erindi um íþróttamál eða önnur hagsmunamál íþróttahreyfingarinnar á Akranesi eftir því sem stjórnin ákveður.

Halda skal fundargerð um það sem fram fer á ársþingi og skal staðfesta fundargerðina í fundarlok, nema þingið ákveði annað.
Heimilt er að taka önnur málefni til umfjöllunar á ársþingi en getið er um í útsendri dagskrá ef 2/3 hlutar viðstaddra atkvæðisbærra fulltrúa samþykkir slíkt.
Kosning stjórnar skal vera skrifleg, ef tilefni er til, svo og þær kosningar sem meirihluti atkvæðisbærra fulltrúa ákveður að skuli vera skriflegur.
Falli atkvæði jöfn í kosningu til stjórnar skal kjósa á ný og þá milli þeirra aðila sem fengu jafn mörg atkvæði. Verði atkvæði jöfn að þeirri kosningu lokinni skal hlutkesti ráða.

14. grein
Fjöldi atkvæða ræður úrslitum um málefni sem fram koma á ársþingi ÍA.
Til lagabreytinga þarf 2/3 hluta atkvæða viðstaddra atkvæðisbærra fulltrúa.

15. grein
Komi fram áskorun 2/5 aðildarfélaga skal halda aukaþing ÍA. Ennfremur skal halda aukaþing ef nauðsyn krefur að mati meirihluta stjórnar ÍA eða fram koma tilmæli um slíkt frá ÍSÍ eða UMFÍ.
Um aukaþing gilda sömu reglur og um reglulegt ársþing skv. III. kafla laga þessara. Þó má ekki gera laga- eða reglugerðarbreytingar og ekki kjósa stjórn nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum, eða stjórnin hefur að eigin dómi orðið óstarfhæf.

V. kafli stjórn ÍA

16. grein
Á milli ársþinga eru störf og framkvæmdavald í höndum stjórnar ÍA. Stjórnin annast daglegan rekstur, ráðningu framkvæmdastjóra og eftir atvikum annað starfsfólk svo og framkvæmdir á vegum ÍA.
Stjórn ÍA skal annast framkvæmdir á ákvörðunum árs- og aukaþings ÍA. Stjórnin skal koma fram fyrir hönd ÍA gagnvart bæjaryfirvöldum á Akranesi.
Stjórn ÍA getur skipað nefndir innan eða utan sinna vébanda til að annast framgang sérstakra málefna.
Formaður stjórnar boðar fundi, hefur umsjón með starfsemi bandalagsins, lögum og samþykktum.
Formaður ásamt gjaldkera og framkvæmdastjóra áritar reikninga til greiðslu og varðveitir skjöl þess.
Ritari ÍA heldur gerðabók stjórnar. Hann færir inn fundargerðir og annast bréfaskriftir eftir því sem samþykktir funda gefa tilefni til og formaður leggur fyrir.
Gjaldkeri hefur á hendi fjármál og bókhald bandalagsins eftir nánari starfsreglum stjórnar. Heimilt að fela sérstökum aðila bókhald bandalagsins og endurskoðun ef ástæða er til.
Stjórn ÍA getur falið framkvæmdastjóra að sinna hlutverkum gjaldkera og ritara eftir því sem tilefni er.
Ársreikningur ÍA skal undirritaður af stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra.
Hlutverk stjórnarmanna skal skilgreina nánar í handbók ÍA sem staðfesta skal á fundi stjórnar og formanna.

VI. kafli

Sérráð

17. grein
Stundi fleiri aðildarfélög en eitt sömu íþróttagrein skal þeim heimilt að stofna sérráð samkvæmt lögum þessum, lögum ÍSÍ og lögum viðkomandi sérsambands.
Ársþing ÍA ákveður hve margir skuli vera í sérráði en ráðið skiptir með sér verkum.
Fjármál sérráða skulu vera á ábyrgð þeirra félaga sem standa að sérráðum og ákveða þau hvort sérráðin skuli vera með sjálfstæðan fjárhag eða ekki. Ef sérráð er með sjálfstæðan fjárhag skulu reikningar þeirra samþykktir af þeim félögum sem mynda sérráðið. Beri eitt félag fjárhagslega ábyrgð á rekstrinum skal aðalfundur þess félags samþykkja ársreikning sérráðsins.
Sérráð skulu halda sérstaka gerðabók, þar sem færðar eru inn fundargerðir og það er þurfa þykir.
Sérráð skal halda reikninga um fjárreiður sínar sem leggja skal fyrir ársþing ÍA.

18. grein
Ef ástæða þykir til getur stjórn ÍA skipað nefnd sem annast skal sérmál einstakra íþróttagreina eða falið stjórn aðildarfélags að annast þau, að því tilskyldu að það sé eina aðildarfélagið sem starfi í viðkomandi íþróttagrein.

VII. kafli

Heiðursviðurkenningar

19. grein
Í reglugerð skal kveðið á um verðlaunaveitingar á vegum ÍA og heiðursmerki.
Halda skal gerðabók um veitingu verðlauna og viðurkenningar og skal ritari ÍA varðveita hana.
Stjórn ÍA hefur heimild til að svipta einstaklinga heiðursviðurkenningum ef upp kemst að þeir hafi brotið gegn þeim viðmiðum sem færðu þeim viðurkenninguna, eða gerst sekir um alvarleg brot á hegningarlögum. Til þess þarf samþykki ¾ hluta stjórnar ÍA.
VIII. kafli

Breytingar á lögum og starfsemi ÍA

20. grein
Um þau atriði, sem ekki eru tekin fram í lögum þessum, gilda eftir því sem við á ákvæði laga ÍSÍ.

21. grein
Kaup og sala fasteigna í eigu ÍA, er bundin samþykki ársþings ÍA eða aukaþings skv. 14. grein, svo og ákvarðanir um veigamikil málefni.
Ákvörðun um að leggja ÍA niður skal tekin á aðalfundi bandalagsins og þarf til þess 4/5 hluta viðstaddra atkvæðisbærra fulltrúa.
Eignum eða skuldum skal skipta á milli aðildarfélaga ÍA í hlutfalli við fjölda iðkenda.

22. grein
Lög þessi skal endurskoða eigi sjaldnar en á fimm ára fresti og öðlast þau gildi þegar framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur staðfest þau.

Lög þessi þannig samþykkt á ársþingi Íþróttabandalags Akraness, 18. apríl 2024.

Edit Content
Edit Content
Edit Content
Edit Content