Í dag, sunnudaginn 10. september, taka strákarnir okkar í meistaraflokki karla á móti KA í Pepsideildinni. Leikurinn hefst kl. 17:00.
Þetta getur aldrei orðið annað en baráttuleikur, það dylst engum að okkur vantar þessi stig meira og við viljum þau meira – en KA hefur verið á góðri siglingu í deildinni upp á síðkastið, hafa ekki tapað leik síðustu sjö vikur.
Tölfræðin er okkur hliðholl að því leiti að í síðustu tíu viðureignum liðanna er aðeins að finna einn ósigur Skagamanna, fimm sigra og fjögur jafntefli. Það er ágætis “uppskrift” fyrir daginn að finna í fyrsta leiknum af þessum tíu, sá var heimaleikur í deild, endaði 5-1 fyrir Skagamenn og Guðmundur Böðvar var á meðal markaskorara.
Tölfræði vinnur ekki leiki, en við trúum því að með stuðningi þínum – og okkar allra – höfum við leikmannahóp sem getur gert það. Mætum á Norðurálsvöllinn í dag og styðjum strákana okkar í baráttunni.
Áfram ÍA!