Káramenn mættu liði Snæfells í Vesturlandsslag A-riðils 4.deildar í gærkvöldi. Fyrirfram mátti búast við öruggum sigri Káramanna enda árangur Snæfells undanfarin ár ekki upp á marga fiska, en jafntefli gegn Herði Ísafirði og naumt tap þeirra gegn Hvíta Riddaranum gáfu til kynna að hér væri mun betra lið á ferðinni en síðustu ár.Það var þó ljóst frá fyrstu mínútu að yfirburðir Káramanna voru miklir, en Snæfellingar voru mjög baráttuglaðir og voru duglegir að setja pressu og berjast. Leikurinn var aðeins 5 mínútna gamall þegar fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós, en þar var á ferðinni Marinó Hilmar Ásgeirsson sem skoraði örugglega af stuttu færi. Káramenn sem sóttu hratt á Snæfellinga áttu fjölmargar sóknir, en því miður nýttust þær ekki vel þar sem síðustu sendingu skorti meiri gæði og Snæfellingar hreinsuðu trekk í trekk boltann úr eigin markteig. Á 26 mínútu kom þó annað mark Káramenna þegar Leó Daðason stökk hæðst í teignum og skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu og staðan 2-0. Sigurður Jónsson gerði strax í fyrri hálfleik 2 breytingar á liði Káramanna og aðrar 2 í hálfleik þar sem nokkrir leikmenn úr 2.flokki höfðu spilað leik daginn áður. Staðan í hálfleik var 2-0 og ljóst að mikið þurfti að ganga á ef sigurinn ætti að vera í hættu enda átti lið Snæfells ansi fáar sóknir í fyrri hálfleik á móti ítrekuðum sóknartilraunum Káramanna.Seinni hálfleikur var ekki gamall þegar þriðja mark leiksins var skorað, en það skoraði Atli Albertsson á 47 mínútu eftir að markvörður Snæfells fór í misheppnað úthlaup og lenti í samstuði mjög utarlega í teignum, Atli átti í litlum erfiðleikum með að senda boltann í autt markið og staðan 3-0. Á 55 mínútu kom svo fjórða mark Kára, en þá tók Róbert Ketilsson góða syrpu upp vinstri kantinn og skoraði af miklu harðfylgi. Snæfell náðu svo á 62 mínútu að minnka muninn í einni af fáum sóknum þeirra í leiknum, en þá náðu þeir góðri skyndisókn þar sem þeir náðu að tvöfalda á ansi fámenna vörn Káramanna þar sem Almar Þór Jónsson komst einn í gegn og skoraði örugglega framhjá markverði Káramanna. Aðeins fjórum mínútum síðar náðu Káramenn svo að auka muninn aftur þegar Ragnar Már Viktorsson náði að leggja boltann í fjærhornið utanfótar inn í teignum eftir góða aukaspyrnu Páls Sindra Einarssonar. Káramenn sem sóttu og sóttu áttu mörg ansi góð færi það sem eftir lifði leiks en náðu því miður ekki að nýta fleiri færi í leiknum, en á 81 mínútu fengu Káramenn vítaspyrnu og rautt spjald á leikmann Snæfells, en ágætur markvörður Snæfells gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu Páls Sindra. Káramenn unnu sanngjarnann og öruggan 5-1 sigur á Snæfelli en voru þó nokkuð ósáttir í leikslok að vinna leikinn ekki stærra, en liðinu skorti oft á tíðum betri gæði undir lok sóknar og hefðu hæglega getað haldið boltanum betur og stýrt leiknum betur en raun varð. Það er ljóst að Káramenn eiga mikið inni frá þessum leik, en jafnframt ánægjulegt að fá baráttuglatt lið Snæfells í heimsókn sem á góðan séns á að stríða einhverjum liðum í sumar.
Næsti leikur Káramanna verður toppslagur á heimavelli gegn sterku liði Áfltaness.Það verður því frábært að fá toppmætingu í næstu viku þegar Káramenn sem sitja nú í efsta sæti A-riðils eftir 2 leiki fá Álftanes í heimsókn, en þeir eru í 2.sæti eftir góðan sigur gegn Hvíta Riddaranum 5-2 í gærkvöldi en eiga leik inni á Káramenn.
Áfram Kári!