ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Jafntefli á Ásvöllum í dag hjá mfl kvk

Jafntefli á Ásvöllum í dag hjá mfl kvk

03/03/18

#2D2D33

Stelpurnar okkar í meistaraflokki kvenna sóttu Hauka heim fyrr í dag á Ásvelli í Hafnarfirði í 3 umferð Faxaflóamótsins. Bæði lið höfðu unnið alla leiki sína til þessa í mótinu. Fyrir leikinn sátu Haukar í efsta sæti með níu stig en okkar lið í öðru sæti með sex stig en hafa þó leikið einum leik færra en Hafnfirðingar.
Leikurinn í dag var mjög kaflaskiptur. Skagastelpur byrjuðu leikinn með látum og sóttu grimmt á mark Hauka. Þrátt fyrir fjölmörg góð marktækifæri þá tókst okkar stelpum bara að skora eitt mark. Það var Maren Leósdóttir sem skoraði á 23. mínútu fyrri hálfleiks eftir frábæra sókn Skagamanna. Fyrri hálfleikurinn var ágætlega leikinn af okkar liði og höfðu stelpurnar okkar yfirhöndina á öllum svæðum vallarins.
Í seinni hálfleik snérist taflið við en þá sóttu Haukastelpur í sig veðrið og sóttu stíft en Skagavörnin hélt vel. Haukar jöfnuðu leikinn þó á 54. mínútu eftir þunga sókn. Það var Hildigunnur Ólafsdóttir sem gerði mark Hauka. Þegar langt var liðið á seinni hálfleik var dæmd umdeild vítaspyrna á Skagamenn. Dómarinn taldi boltann hafa farið í hönd leikmanns ÍA innan teigs og þeim dómi var ekki haggað þrátt fyrir öflug mótmæli Skagamanna innan vallar sem utan.
Nýr markvörður ÍA, Tori Jeanne Ornela gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði vítaspyrnuna meistaralega. Þrumuskot út við stöng en Tori sýndi þar og sannaði að hún er góður liðsauki fyrir okkar lið.
Í lok leiksins virtust Skagastelpur þó vakna aðeins og byrjuðu að sækja af krafti. Þrátt fyrir nokkur tækifæri urðu mörkin ekki fleiri og jafntefli verða að teljast nokkuð sanngjörn úrslit miðað við gang leiksins. Þetta var í heild mikill baráttu leikur og hvorugt lið náði almennilega upp öflugu spili þrátt fyrir góðar aðstæður á Ásvöllum. Skagaliðið á leik framundan næstkomandi helgi gegn liði Tindastóls og með sigri í þeim leik eiga stelpurnar möguleika að ná toppsætinu af Haukum. Við hvetjum Skagamenn til að fjölmenna í Akraneshöllina á sunnudag og styðja ungt og efnilegt meistaraflokkslið ÍA.

Edit Content
Edit Content
Edit Content