Hnefaleikafélag Akraness/ÍA hefur eignast nýjan Íslandsmeistara í ólympískum hnefaleikum. Bjarni Þór Benediktsson frá Hnefaleikafélagi Akraness kom, sá og sigraði andstæðing sinn Sólon Ísfeld frá hnefalekafélaginu Æsi í -64kg flokki ungmenna.
Viðureignin var mjög spennandi og tæknileg enda fengu þeir félagar sérstaka viðurkenningu að loknu móti fyrir tæknilegustu viðureign kvöldsins. Mjótt var á munum undir lokin og var ákvörðun dómara klofin en í upphafi leiks hafði Bjarni yfirhöndina en hann jafnaðist þó þegar á leið. Í lok þriðju og síðustu lotu var mikil spenna um niðurstöðuna en Bjarni hafði þó betur og fagnar því sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í ólympískum hnefaleikum.
Næst er stefnan sett á Norðurlandamótið sem haldið er í Danmörku í ár og er Bjarni Þór á fullu að undirbúa sig fyrir það.
Hér má sjá frétt mbl.is um mótið: http://www.mbl.is/sport/frettir/2017/02/26/jafet_fekk_bensabikarinn_til_eignar/