Á morgun, laugardaginn 9. september, fer fram lokaumferð 1. deildar kvenna þetta sumarið. ÍA á heimaleik gegn Sindra frá Hornafirði og hefst leikurinn á Norðurálsvellinum kl. 13:00.
Stelpurnar okkar hafa verið á góðu skriði upp á síðkastið, landað 10 stigum í síðustu 4 leikjum og eru til alls líklegar. Sindrastelpur munu þó sjálfsagt ekki gefa neitt eftir, en þær eru 2 stigum og 2 sætum neðar fyrir leikinn. Tölfræðin er þó okkur í vil, aðeins hafa verið skráðar 7 viðureignir á milli félaganna á vef KSÍ, 6 ÍA sigrar og 1 jafntefli.
Við hvetjum alla til að mæta á Norðurálsvöllinn á morgun og ljúka fótboltasumrinu með stelpunum. Að vanda verða fríar kaffiveitingar í hálfleik og happdrættið verður á sínum stað. Að þessu sinni verður vinningurinn listaverk eftir Ernu Hafnes.
Áfram ÍA!