Knattspyrnufélag ÍA hefur endurnýjað samninga við marga af sínum leikmönnum á undanförnum vikum, auk þess sem að Andri Geir Alexandersson gengur að nýju til liðs við félagið. Alls hefur félagið gert 16 leikmannasamninga á þessu ári við leikmenn sem munu vera hjá félaginu á næsta keppnistímabili.
Andri Geir Alexandersson gengur á ný til liðs við sitt uppeldisfélag. Andri Geir skrifar undir eins árs samning við félagið. Andri Geir lék síðast með ÍA í Pepsi deild 2013 en lék síðan í tvö ár með HK í 1.deild. Andri Geir hefur leikið 68 leiki fyrir meistaraflokk ÍA og skorað í þeim tvö mörk.
Arnar Már Guðjónsson framlengdi samning sinn við ÍA um tvö ár. Arnar Már hefur leikið fyrir ÍA allan sinn feril ef undan eru skilin tvö ár er hann lék með KA 2008-2009. Arnar Már átti gott tímabil með ÍA í Pepsi deild karla í sumar. Hann lék 19 leiki í deildinni og skoraði í þeim fjögur glæsileg mörk. Arnar Már hefur leikið 259 leiki fyrir meistaraflokk ÍA og skorað í þeim 52 mörk.
Darren Lough hefur framlengt samning sinn við ÍA um tvö ár. Darren kom til liðsins fyrir tímabilið 2014 en það ár tryggði liðið sér sæti í efstu deild að nýju. Darren hefur verið lykilmaður í liðinu undanfarin tvö ár og spilaði hann 19 leiki í sumar og skoraði auk þess eitt mark.
Eins og við greindum frá á heimasíðu félagsins á dögunum framlengdi Ármann Smári Björnsson samning sinn við ÍA um eitt ár. Ármann Smári hefur verið lykilmaður ÍA undanfarin ár auk þess að vera fyrirliði liðsins. Hann hefur átt mikinn þátt í góðu gengi liðsins undanfarin tvö ár og spilaði til að mynda alla 22 leiki liðsins í Pepsí deild karla í sumar.
Þá hefur Páll Gísli Jónsson framlengt samning sinn við ÍA um eitt ár. Páll hóf að leika með meistaraflokki ÍA árið 2000 og hefur leikir 254 leiki fyrir félagið. Páll mun veita Árna Snæ Ólafssyni verðugar samkeppni í sumar og má ljóst vera að staða félagsins í markvarðamálum er öfundsverð.
Fyrr í haust endurnýjaði ÍA svo samninga við þá Hall Flosason, sem hóf að leika með meistaraflokki árið 2011 og hefur leikið 105 leiki og skorað í þeim 10 mörk, Gylfa Veigar Gylfason sem hóf að leika með félaginu 2012 og hefur síðan þá leikið 62 leik og skorað í þeim 1 mark og Tryggva Hrafn Haraldsson sem steig sín fyrstu skref með meistaraflokki í sumar eftir erfitt meiðslatímabil.
Ennfremur hefur félagið nýverið gert samninga við nokkra af yngri leikmönnum félagsins þá Hafþór Pétursson, Steinar Þorsteinsson, Arnór Sigurðsson og Árna Þór Árnason. Þá hafa fleiri yngri leikmenn sem æft hafa með meistaraflokki að undanförnu bankað hressilega á dyrnar og má allt eins búast við því að samið verði við fleiri unga leikmenn á næstu misserum.
Á meðfylgjandi mynd eru f.v. Gylfi Veigar Gylfason, Andri Geir Alexandersson, Gunnlaugur Jónsson þjálfari, Ármann Smári Björnsson, Hallur Flosason og Arnar Már Guðjónsson. Fyrir aftan standa Magnúsi Guðmundsson formaður og Örn Gunnarsson stjórnarmaður.