ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

ÍA og Njarðvík gerðu jafntefli í fjörugum leik

ÍA og Njarðvík gerðu jafntefli í fjörugum leik

25/05/18

#2D2D33

Skagamenn spiluðu í kvöld við Njarðvík á Norðurálsvelli í fjórðu umferð Inkasso-deildarinnar. ÍA hafði unnið fyrstu þrjá leikina á tímabilinu en Njarðvík var um miðja deild með fjögur stig. Aðstæður voru erfiðar á vellinum í kvöld, rok og rigning og þungur völlur og það hafði mikil áhrif á gang leiksins.

Njarðvík náði draumabyrjun í leiknum en strax á fjórðu mínútu skoraði Stefán Birgir Jóhannesson með langskoti sem Árni Snær Ólafsson markvörður missti hreinlega undir sig og boltinn lak í netið. Skagamenn létu samt ekki slá sig útaf laginu og reyndu að sækja jöfnunarmarkið.

Eftir mikinn barning í hálfleiknum þar sem ÍA skapaði sér álitleg færi kom jöfnunarmarkið á 36. mínútu þegar Andri Adolphsson átti sendingu inn í vítateig Njarðvíkur. Boltinn fór af varnarmanni Njarðvíkur beint fyrir Stefán Teit Þórðarson sem skoraði með góðu skoti. Staðan orðin 1-1 og þannig var staðan í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var um margt eins og sá fyrri. Baráttan var í fyrirrúmi og bæði lið náðu að skapa sér ágæt færi á köflum. Skagamenn stjórnuðu samt ferðinni að miklu leyti og Njarðvík beitti meira skyndisóknum.

Á 66. mínútu náði ÍA að komast yfir þegar Þórður Þorsteinn Þórðarson tók aukaspyrnu sem fór inn í vítateig gestanna. Varnarmaður Njarðvíkur náði ekki að hreinsa boltann í burtu og Andri Adolphsson skoraði með góðu skoti í fjærhornið.

Njarðvíkingar létu ekki slá sig útaf laginu og skömmu síðar var dæmd vítaspyrna á Skagamenn eftir að Hörður Ingi Gunnarsson braut á sóknarmanni gestanna. Vítaspyrnuna tók Andri Fannar Freysson en skot hans fór í þverslána. Þar voru heimamenn heppnir.

Eftir þetta fengu Skagamenn tækifæri til að klára leikinn en ekki náðist að nýta þau. Njarðvík nýtti sér það því á 86. mínútu fengu þeir hornspyrnu og úr henni skoraði Magnús Þór Magnússon með föstum skalla.

Það sem eftir lifði leiks reyndi ÍA að skora sigurmarkið en því miður gekk það ekki eftir og leikurinn endaði með 2-2 jafntefli sem kannski má segja að séu sanngjörn úrslit þegar litið er á heildina. Skagamenn sitja samt eftir með sárt ennið eftir að hafa verið svo nálægt því að fá þrju stig úr leiknum.

Edit Content
Edit Content
Edit Content
Edit Content