Skagamenn spiluðu í kvöld við HK í Kórnum í sjöundu umferð Inkasso-deildarinnar. Um algjöran toppslag var að ræða enda voru þetta tvö efstu lið deildarinnar svo ljóst var að ekkert yrði gefið eftir í leiknum.
Frá fyrstu mínútu leiksins var ljóst að þetta voru meðal sterkustu liða deildarinnar. Hátt tempó var í leiknum og bæði lið spiluðu hraðan og agaðan leik þar sem barist var um alla bolta.
Skagamenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og sköpuðu sér nokkur álitleg færi en því miður misfórust þau. HK fékk einnig góð færi en sterk vörn ÍA náði að bjarga þegar þörf var á. Staðan í hálfleik var því markalaus.
Seinni hálfleikur var svo um margt svipaður og sá fyrri. Bæði lið spiluðu á háu tempói en þegar kom að vítateig liðanna var sóknarmönnum beggja liða fyrirmunað að koma boltanum í netið. HK skapaði sér hættulegri færi í hálfleiknum, sérstaklega undir lok leiksins en Skagamenn náðu að halda markinu hreinu í leiknum.
ÍA fékk svo sín færi en það besta kom líklega á 70. mínútu þegar Þórður Þorsteinn Þórðarson átti bylmingsskot að marki HK en markvörður heimamanna varði meistaralega á síðustu stundu.
Þrátt fyrir ágætar sóknir náðu Skagamenn ekki að koma boltanum í netið og leikurinn endaði því 0-0, sem eru í raun ótrúleg úrslit miðað við hraðann í leiknum og gæðin sem komu fram í honum.