Þann 7. júlí sl. opnaði Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, Hreyfistöðvar í Garðalundi en þar eru ellefu upplýsingaskilti með leiðbeiningum um æfingar. Hreyfistöðvar í Garðalundi eru hluti af Heilsueflandi samfélagi á Akranesi og er verkefnið samstarfsverkefni Akraneskaupstaðar og Íþróttabandalags Akraness. Sævar sagði frá því að með innleiðingu heilsueflandi samfélags á Akranesi þá hafi aukinn kraftur verið settur í uppbyggingu ýmissa innviða sem stuðla eigi að aukinni hreyfingu og heilsueflingu bæjarbúa.
Hildur Karen Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri ÍA, hafði umsjón með verkefninu og kynnti hún það fyrir gestum við opnunina í Garðalundi. Fram kom í máli hennar að miklar væntingar séu bundnar við hreyfistöðvarnar og að þessi skemmtilegi æfingahringur í einni af perlum Akraness muni stuðla að aukinni hreyfingu og útivist bæjarbúa og gesta í Garðalundi.
Æfingarnar á hreyfistöðvunum henta öllum aldri en sjúkraþjálfararnir Anna Sólveig Smáradóttir og Helga Sjöfn Jóhannesdóttir settu æfingarnar upp. Þær fóru einnig í gegnum allar æfingarnar með gestum opnunarathafnarinnar. Bjarna Helgason sá um hönnun skiltanna, Steðji efh. um smíði á þeim og Topp Útlit sá um prentun á skiltin. Starfsmenn skipulags- og umhverfissviðs sáu svo um að koma skiltunum fyrir ásamt því að hanna og smíða pall með einni af hreyfistöðvunum.
Hér er búið setja inn upplýsingar á heimasíðu Akraness um Hreyfistöðvar í Garðalundi. Þar verða æfingar sýndar og einnig eru myndbönd fyrir hverja æfingu væntanleg. Til að tengja sama hreyfistöðvarnar og heimasíðuna hefur QR-kóði sem hægt er að skanna með farsíma verið settur á upplýsingaskiltin og fæst þannig beinn aðgangur að upplýsingum um æfingarnar á heimasíðunni.
Meðfylgjandi myndir voru teknar við vígslunina í gær.
Myndir tók Myndsmiðjan.