Það var hress og áhugasamur hópur ungra knapa sem hélt af stað í reiðtúr s.l sunnudag á Æðarodda. Í þessum reiðtúr voru foreldrar bannaðir.
Foreldrarnir voru nú frekar á því að það væri ” of vont veður” til að fara á bak en það kom ekki til greina í hugum krakkana að hætta við fyrirhugaðan útreiðatúr þó að vindur blési all hressilega og heldur kalt á kinn. Í hópnum voru níu krakkar á aldrinum 7 til 15 ára og voru í fylgd og umsjón fulltrúa æskulýðsnefndar Dreyra, Viktoríu Gunnarsdóttur, sem er í ungmennaflokki. Eftir frískandi útreiðar var svo safnast saman í einu hesthúsinu og gætt sér á ljúffengri flatböku. Krakkarnir voru á einu máli um að endurtaka leikinn fljótlega aftur og þá munu án efa fleiri krakkar slást í hópinn.
Það er heilmikið framundan í starfinu fyrir unga knapa hjá Dreyra næstu vikur. Má þar nefna að 27 krakkar á aldrinum 10 til 16 ára eru að fara á helgarnámskeið um hestamennsku á Skáney í Reykholtsdal. Um námskeiðið sjá reiðkennarnir á Skáney þau Randi Holaker og Haukur Bjarnason. Krakkarnir gista á Skáney 2 nætur og fræðast um allt milli himins og jarðar sem tengist hestamennsku í sinni viðustu mynd, ýmsum fróðleik um hestaheilsu, hestaferðalög, fóðrun, útreiðar, þjálfun og ásetu. Hópnum verður skipt upp á 2 helgar nú í marsmánuði.
Dreyri verður einnig með Knapamerkjanámskeið í samstarfi við reiðkennarana í Skáney í vetur og vor og eru það samtals 10 krakkar sem ætla að sitja þessi námskeið. Um er að ræða námskeið í viðurkenndu námsefni í hestamennsku sem kallast knapamerki I, knapamerki II og knapamerki III. Námsefni í knapamerkjunum er til upp í knapamerki V. En þetta kallar á þá fyrirhöfn foreldra að keyra börnum sínum upp í Reykholtsdal (70 km önnur leið) 15 sinnum í vor. Á Skáney fá krakkarnir hesta og reiðtygi fyrir námskeiðin og þar er auðvitað góð reiðhöll til kennsluhalds.
Mikið væri nú gott ef það væri reiðskemma á Æðarodda, það myndi svo sannarlega auðvelda lífið og fyrirhöfnina við námskeiðahald innandyra fyrir krakkana okkar.
Þá er einnig á vetrardagskránni þrautadagur, töltmót og sameiginleg ferð á Æskan og Hesturinn í Víðidalnum þann 28. apríl n.k.