Á Akranesi eru fjölbreyttir möguleikar varðandi heilsurækt. Umhverfi bæjarins er tilvalið til hverskonar hreyfingar og útivistar. Bærinn þykir einkar hjólavænn og mikið af göngustígum sem henta vel í gönguferðir og skokk. Langisandur er ein vinsælasta útivistarperla bæjarbúa og mikið notaður til gönguferða. Sjósund nýtur sífelt vaxandi vinsælda og er stundað allt árið, starfandi er sjósundfélag Akraness. Í Garðalundi er að finna leiktæki, sandblakvöll og sparkvelli fyrir börn á öllum aldri. Akrafjall hefur lengi verið vinsæl útivistarparadís Skagamanna, enda er fjallið tiltölulega auðvelt að ganga á og hentar því fjölskyldufólki sérstaklega vel. Á Jaðarsbökkum er 25m útisundlaug og Bjarnalaug er 12,5m innilaug. Akraneshöllin er öllum opin og Garðavöllur er 18 holu golfvöllur í hæsta gæðaflokki. Félag eldriborgara á Akranesi heldur þróttmiklu starfi fyrir sína félagsmenn og innan raða ÍA fer fram mjög fjölbreytt íþróttastarf fyrir fólk á öllum aldri.
Íþróttabandalag Akraness sér um rekstur á þreksölunum í íþróttamannvirkjum bæjarins samkvæmt leigu- og rekstrarsamningi við Akraneskaupstað. Þreksalirnir eru útbúnir með hefbundnum hætti, með hlaupabrettum, hjólum, þrektækjum og lóðum. Einnig eru til staðar minni salir sem eru hentugir fyrir fjölbreytta notkun og hóptíma. Með því að stunda líkamsrækt í þreksölunum er jafnframt verið að styrkja íþróttastarf ÍA.
Nokkrir sjálfstætt starfandi einkaþjálfarar eru starfandi í þreksölunum og bjóða uppá persónulega þjónustu varðandi heilsurækt. Einnig eru í gangi fjölbreytt flóra af hóptímum. Áhugasömum er bent á að hafa samband við viðeigandi aðila varðandi nánari upplýsingar. Þeir sem kaupa árskort í þrek og sund eiga rétt á 60 mín með leiðbeinanda í þreksalnum. Starfandi einkaþjálfarar sjá um að leiðbeina og panta þarf tíma hjá þeim.
Við æfingar í þreksölunum er hver og einn á eigin ábyrgð, aldurstakmark til að sækja þreksalina miðast við að vera á 14. ári. Iðkendur eru vinsamlegast beðnir að ganga vel um aðstöðuna og virða þær reglur sem í gildi eru.
Þeir sem leigja eða sækja hóptíma þurfa ekki að greiða sérstaklega fyrir aðgang að búningsaðstöðu og sturtu. Það skal þó tekið fram að það gildir ekki um laug, potta og gufu, ef viðkomandi ætlar að nýta sér þá aðstöðu, þarf að greiða sundlaugargjald. Sama á við ef viðkomandi ætlar í þreksal fyrir eða eftir tíma þá þarf að greiða þrekgjald. Það er á ábyrgð leiðbeinenda hvers hóps að upplýsa í afgreiðslu fjölda þeirra sem sóttu tímann.
Íþróttafélög innan ÍA verða að sækja sérstaklega um aðgang að þreksölunum fyrir sitt keppnisfólk. Tíminn á milli 17:00 – 19:00 virka daga í þreksalnum á Jaðarsbökkum er eingöngu ætlaður þeim sem greiða fullt gjald í salinn, íþróttahópar og afsláttakjör gilda ekki á þeim tíma.