ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Fyrstu verðlaunin á ÍM 50 komin í hús!

Fyrstu verðlaunin á ÍM 50 komin í hús!

05/04/19

Lið

Þá er fyrsta degi á Íslandsmeistaramótinu í 50 metra laug lokið, undanrásir voru syntar í morgun og svo fór úrslitahlutinn fram seinnipartinn í dag.

Brynhildur synti 400 metra skriðsund og átti glæsilegt sund, bætti sig um heilar 8 sekúndur og endaði í þriðja sæti í hörkuspennandi keppni. Tíminn hennar Brynhildar var 4.30.63.

Atli Vikar var í hörkubaráttu um 3. sætið í 100 metra flugsundi og endaði að lokum í 5. sæti, á tímanum 1.01.28 sem var rétt um hálfri sekúndu á eftir bronsverðlaunasæti.

Ragnheiður Karen og Guðbjörg Bjartey syntu báðar í úrslitum í 100 metra bringusundi og stóðu sig vel. Ragnheiður endaði í 6. sæti á 1.19.49, rétt um hálfri sekúndu frá tímanum sem hún synti í morgun, sem var jafnframt bæting upp á heila sekúndu. Bjartey endaði í 7. sæti en var áttunda inn í úrslitin. Hún bætti sig einnig og synti á 1.20.01.

Sundfólkið okkar hefur því átt mjög góðan dag í Laugardalnum og margar góðar bætingar hafa litið dagsins ljós. Enrique Snær Llorens bætti sig um 6 sekúndur í 400 metra skriðsundi og átti kraftmikinn endasprett og lauk sundinu á 4.29.16.

Brynhildur og Guðbjörg Bjartey bættu sig báðar í 50 metra skriðsundi.

Sindri Andreas Bjarnason bætti sig í sínum greinum; 50 m skriðsundi og 100 m flugsundi. Hann endaði 12. sæti báðum sundunum, synti 50 skrið á 26.35 og 100 flug á 1.05.00.

Erlend Magnússon bætti sig í 50 skriði og synti á 26.86. Bróðir hans, Kristján Magnússon synti 100 metra baksundssprett í 4x100m blönduðu fjórsundi en það gefur honum löglegan tíma og besta tíma hans í þessu sundi fram að þessu, 1.11.87.

Í blönduðu boðsundi átti SA tvö lið, lið 1 sem var skipað þeim Erlend, Ragnheiði Karen, Atla Vikar og Brynhildi endaði í 4. sæti og lið 2 með þeim Kristjáni, Guðbjörgu, Enrique og Ingibjörgu Svövu endaði í 8. sæti.

Í 4×200 metra skriðsundi kvenna syntu þær Brynhildur, Guðbjörg, Ragnheiður og Ingibjörg og höfnuðu í 6. sæti. Karlasveitin endaði í 4. sæti en hana skipuðu þeir Atli Vikar, Sindri Andreas, Enrique og Kristján.

Dagurinn sýnir það og sannar að sundfólkið okkar er í góðu formi, andinn í liðinu er góður og mikil stemning á bakkanum og einnig utan sundlaugarinnar. Það er því tilhlökkun að sjá hvað morgundagurinn ber í skauti sér, endilega fylgist með okkur og við minnum á að úrslitahlutanum á morgun verður sjónvarpað beint.

 

 

Edit Content
Edit Content
Edit Content