Það er stutt á milli leikja þessa dagana og næsti leikur meistaraflokks karla í Pepsideildinni fer fram á Fjölnisvelli í Grafarvogi á morgun, fimmtudaginn 14. september, kl. 17:00.
Það þarf ekki að taka það fram að strákarnir okkar ætla sér að sækja öll stigin í þessum leik. Þegar upp verður staðið verður staðreyndin sú að KA verður eina liðið sem ekki skoraði hjá okkur í sumar og nú ætlum við að sjá til þess að Fjölnir verði það lið sem við unnum í báðum umferðunum. Það verður hægara sagt en gert, Fjölnir eru í fallbaráttu eins og við, þó staða þeirra sé vissulega nokkuð vænlegri. Það hefur einnig verið mikið jafnræði með liðunum, þau hafa mæst sjö sinnum í öllum keppnum á árunum 2015-2017, þar hefur hvort lið haft sigur þrisvar sinnum og einu sinni hafa liðin gert jafntefli. ÍA hefur skorað 13 mörk í þessum leikjum en Fjölnir 15, það er meðaltal upp á 4 mörk í leik!
Jón Þór Hauksson, þjálfari liðsins, hafði þetta að segja fyrir leikinn: “Sigurinn í síðasta leik var kærkominn – vægt til orða tekið. Hann breytir miklu fyrir liðið. Nú er verkefnið að tengja saman tvo sigurleiki og við erum staðráðnir í því að fara í Grafarvog til að ná í sigur. Stuðningur við liðið hefur verið frábær í undanförnum leikjum og ég hef fulla trú á því að svo verði í næsta leik einnig. Hann skiptir liðið miklu máli.”
Nú þurfa strákarnir stuðning sem aldrei fyrr. Það verður boðið upp á ókeypis rútu frá Jaðarsbökkum, brottför stundvíslega kl. 16:00 og heimferð strax eftir leik. Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig í rútuna hér.