Starfið hjá Badmintonfélagi Akraness fer vel af stað á 40 ára afmælisárinu.
Félagið býður öllum börnum fæddum árið 2006 að koma og æfa badminton og fá allir nýir iðkendur spaða að gjöf. Nú þegar hafa nokkrir krakkar þekkst þetta boð og hafa byrjað að æfa badminton.
Minitonnámskeiðið verður 10 vikna námskeið þessa vorönnina og hefst það sunnudaginn 7. febrúar. Kennt er í íþróttahúsinu við Vesturgötu á sunnudögum kl. 12. Miniton er ætlað 4-7 ára börnum og foreldrum þeirra. Á námskeiðinu eru kennd grunnatriðin í badminton í gegnum leiki og svo er farið í þrautabraut og leiki líka.
Margir krakkar, allt frá 8 ára og upp í 25 hafa verið boðaðir á landsliðsæfingar í vetur og erum við mjög stolt af því.
Trimmið fer frekar hægt af stað eftir áramótin og vonum við að Skagamenn fari að taka við sér og mæta á Vesturgötuna og spila badminton. Ekkert kostar að vera í trimminu en spilarar skaffa sjálfir kúlur.
Félagið verður með unglingamót í febrúar, Landsbankamót.
Íslandsmót unglinga verður svo haldið á Akranesi í mars og þá eigum við von á um 200 keppendum í heimsókn til okkar.
Að lokum viljum við biðja foreldra að skrá iðkendur í Nóra, þeir sem eru fæddir 2006 skrá sig í hóp fyrir 2006 en aðrir í hóp 3, hóp 2, hóp 1 eða trimm.
Gengið er frá greiðslu æfingagjalda í Nóra og þar er hægt að nýta tómstundaframlag frá Akraneskaupstað.
Mikilvægt er að upplýsingar í Nóra séu réttar því allar upplýsingar um mót og annað hjá félaginu eru sendar í tölvupósti.