Kæru stuðningsmenn,
Gengi meistaraflokks karla hefur ekki verið samkvæmt væntingum í sumar og staða félagsins í Pepsi-deildinni er erfið. Á sama tíma erum við með ungt og efnilegt lið sem hefur gríðarlega mikinn metnað til að gera góða hluti á komandi árum.
Til að styrkja bakland meistaraflokks karla hefur aðalstjórn knattspyrnufélags ÍA (KFÍA) ákveðið setja á laggirnar meistaraflokksráð karla. Hlutverk ráðsins er að eiga reglubundin samskipti við þjálfara meistaraflokks karla og 2. flokk karla um markmið og árangur. Hafa ráðgefandi hlutverk í leikmannamálum og þjálfaramálum. Einnig verður hlutverk ráðsins að stuðla að því að gildi KFÍA verði í hávegum höfð en þau eru; Metnaður – Vinnusemi – Þrautseigja – Virðing – Agi. Aðalstjórn KFÍA hefur fengið reynslumikla einstaklinga til að taka þátt í starfi meistaraflokksráðs en allt eru þetta fyrrverandi leikmenn meistaraflokks með mikla reynslu að baki m.a. sem atvinnumenn í erlendum liðum. Þetta eru Viktor Elvar Viktorsson formaður en hann situr jafnframt í aðalstjórn KFÍA, Haraldur Ingólfsson, Sigurður Sigursteinsson, Stefán Þór Þórðarson og Þórður Guðjónsson.
Meistaraflokksráð mun vera aðalstjórn ráðgefandi í ofantöldum málum og styðja við þjálfarateymi og leikmenn meistaraflokks karla. Vonandi er þetta fyrsta skrefið í að KFÍA standi að nýju undir því heiti að vera stórveldi í íslenskum fótbolta.
Áfram ÍA!!!!
Aðalstjórn KFÍA