Sigurður Þór Sigursteinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri knattspyrnufélags ÍA (KFÍA) og tekur hann við starfinu af Huldu Birnu Baldursdóttur frá 1. ágúst nk. Sigurður er Skagamaður, uppalinn í yngri flokkum KFÍA og hefur leikið alls 106 leiki með meistaraflokki auk fjölmargra landsleikja með yngri landsliðum Íslands.
„Það er mjög spennandi að taka við starfi framkvæmdastjóra knattspyrnufélags ÍA en ég þekki vel til félagsins sem leikmaður, fyrrum stjórnarmaður, foreldri og stuðningsmaður. Einnig hef ég setið í meistaraflokksráði KFÍA og sinnt öðrum verkefnum hjá félaginu. Ég hef sterkar tilfinningar til félagsins og hlakka mikið til að starfa með öflugum hópi stjórnar, starfsmanna, iðkenda og þjálfara KFÍA. Framundan eru spennandi tímar uppbyggingar og framfara hjá félaginu og það eru forréttindi að fá tækifæri til að vera virkur þátttakandi í þeirri vegferð.“ segir Sigurður Þór.
„Við erum mjög spennt fyrir að fá Sigurð inn í starf framkvæmdastjóra félagsins. Honum fylgir mikil reynsla af knattspyrnunni því Sigurður og hans fjölskylda hafa verið áberandi í starfi félagsins í fjölmörg ár. Ég hef trú á því að Siggi sé frábær viðbót í annars mjög öflugan hóp starfsfólks hjá félaginu. Ég vil samtímis þakka Huldu Birnu fyrir hennar framlag til félagsins.“ segir Magnús Guðmundsson formaður KFÍA.
Um Sigurð Þór:
Sigurður Þór lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi árið 1992 en eftir það fór hann til náms í Danmörku og lauk hann þar námi í iðjuþjálfun árið 1998. Sigurður sótti einnig nám í sjúkraflutningum árin 2002 og 2005. Sigurður hefur undanfarin níu ár starfað sem sérfræðingur og síðar ráðgjafi hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði og þar á undan starfaði hann sem verkefnisstjóri hjá Akraneskaupstað.
Akranesi 17. maí 2018
Aðalstjórn Knattspyrnufélags ÍA
Frekari upplýsingar: Magnús Guðmundsson
Formaður Knattspyrnufélags ÍA magnus@lmi.is