Hnefaleikafélag Akraness tefldi fram tveimur keppendum á fyrsta hnefaleikamóti ársins sem var á vegum HR/Mjölnir í Mjölniskastalanum í gærkvöldi. Frá Akranesi tóku þeir Arnór Már Grímsson (64kg) og Hróbjartur Trausti Árnason (75kg) þátt.
Arnór Már mætti Þránni Sigurðsyni frá HR/Mjölni og átti í litlum vandræðum með hann, enda Arnór Már einn reynslu mesti hnefaleikakappi landsins um þessar mundir. Þráinn átti fá svör við sóknum Arnórs og því var þetta auðveldur sigur fyrir HAK, 3-0.
Hróbjartur Trausti mætti Arnari Má Kristjánssyni í 75kg flokki og var það hörkuviðureign þar sem báðir skiptust á að skora stig. Hróbjartur var full seinn í gang þar sem Arnar Már hóf leikinn af miklum krafti og sótti hart að Hróbjarti í fyrstu lotu en leikar jöfnuðust nokkuð vel í seinni tveimur lotunum. Það fór þó svo að heimamaðurinn vann 3-0 sigur.
Næsta verkefni HAK er ACBC box cup í Gautaborg í byrjun nóvembermánaðar en þangað fara fjórir keppendur frá HAK ásamt þjálfurum. Í allt fara um 30 þátttakendur frá Íslandi á þetta stærsta mót Evrópu, þar sem 500-600 keppendur frá ýmsum löndum taka þátt.