ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Fjörug körfuboltavertíð framundan

Fjörug körfuboltavertíð framundan

28/09/19

#2D2D33

Nú eru haustlaufin byrjuð að falla og norðurljósin komin á kreik. Það þýðir að nú bar eitt, körfuboltavertíðin er að fara af stað og mikið fjör framundan. Strákarnir okkar í 10.flokki hófu vertíðina með því að landa glæsilegum sigri á ÍR á miðvikdaginn sl. 97 – 81 í hröðum og skemmtilegum leik. Fyrsti leikurinn í meistaraflokki verður á sunnudaginn nk.kl: 14:00 á Jaðarsbökkum þegar Njarðvík b kemur í heimsókn. Það verður fróðlegt að fylgjast með okkar liði í 2.deildinni í vetur, þar erum við með marga unga heimamenn sem eru að stíga sín fyrstu spor í meistaraflokki í bland við nokkra reynslubolta. Chaz Franklin er kominn aftur til okkar sem þjálfari og leikmaður. Einnig er Ingimundur Orri Jóhannsson kominn til okkar á vinasamning frá Stjörnunni, ungur og efnilegur leikmaður þar á ferð. 10.flokkur okkar spilar í 1.deild í sínum aldursflokki í vetur og er þar í hópi bestu liða. Það verður áhugavert að fylgjast með þeim í vetur sérstaklega í ljósi þess að 7 af 9 leikmönnum okkar eru ennþá bara í 9.bekk. Til að byrja með komum við til með að spila alla okkar leiki á Jaðarsbökkum en munum flytja okkur á Vesturgötuna um leið og búningsklefarnir verða klárir þar. Hægt er að skoða leikjaplan ÍA vetur á heimasíðu KKÍ (kki.is) og væntum þess að vera með leiki okkar á ÍA Tv um leið og við komumst aftur á Vesturgötuna.

Yngriflokkastarfið okkar er líka komið á fulla ferð og lofar það mjög góðu. Á heimasíðu körfuknattleiksfélagsins á ia.is er að finna upplýsingar um æfingatíma, æfingagjöld ofl. Upplagt fyrir áhugasama að koma og prufa nokkrar körfuboltaæfingar. Skráningar og greiðsla æfingagjalda er svo í Nóra skráningarkerfi ÍA (ia.felog.is). Okkur finnst mikilvægt að börn hafi tök á því að prufa að stunda sem flestar íþróttagreinar á unga aldri, við reynum því að stilla okkar æfingafjölda og æfingagjöldum í hóf. Í minniboltanum hjá okkur leggjum við upp með að strákar og stelpur æfi saman. Í viðleitni okkar til að fá fleiri stelpur til að prufa að æfa körfubolta þá ætlum við að vera með sérstakar stelpu æfingar fyrir 3. – 5. bekk einu sinni í viku. Það getur þá verið til viðbótar við aðrar minnibolta æfingar eða samhliða öðrum íþróttagreinum eins og td. fimleikum og fótbolta. Gaman er að segja frá því að það verða líka sérstakar æfingar fyrir stelpur fæddar ´03 og eldri, hvetjum við sem flestar til að koma og prufa þær.

Það verður í nógu að snúast í körfunni í vetur og höfum við komist langt á því að margt smátt gerir eitt stórt. Helstu styrktaraðilar Körfuknattleiksfélags ÍA eru eftirfarandi og það er nóg pláss fyrir fleiri: Brim, Íslandsbanki, Galito, Gamla Kaupfélaginu, StayWest, Bílaleiga Akureyrar, Elkem, Landsbankinn, Askja/KIA, Þróttur ehf, Norðurál, Bónus, Dominos, SS, Kallabakarí, ÞÞÞ, VLFA, Verslun Einars Ólafssonar, Halla-Mál ehf, Dýrfinna Torfadóttir, Blikksmiðja Guðmundar, Prentmet, ToppÚtlit, Metabolic Akranes, Akraneskaupstaður, ÍA og KKÍ. Við þökkum þeim sem og öllum öðrum fyrir stuðninginn og bjóðum fleiri velkomin í hópinn. Við horfum bjartsýn til framtíðar í körfunni, áfram ÍA!

Edit Content
Edit Content
Edit Content
Edit Content