Knattspyrnufélag ÍA (KFÍA) stendur á ákveðnum tímamótun þar sem framtíðarsýn og skipulag félagsins er til skoðunar. Þáttur í þessu er að nýlega var stofnað meistaraflokksráð karla og fyrirhugaða er að stofna meistaraflokksráð kvenna. Einnig eru nú til skoðunar skipulag þjálfunar hjá félaginu og hlutverk yfirþjálfara. Yfirþjálfari hefur haft yfirumsjón með starfi yngri flokka félagsins upp í 3ja flokk sem felst m.a. í nánu samstarfi við þjálfara til að tryggja samhæfingu og faglegt uppbyggingarstarf. Einnig hefur yfirþjálfari komið að ýmsum verkefnum sem snúa að skipulagi æfingatíma og margvíslegu samstarfi og upplýsingamiðlun til foreldra. Auk þess hefur hann haft umsjón með skipulagi heimaleikja og mönnun dómgæslu í samvinnu við félag dómara á Akranesi.
Jón Þór Hauksson hefur sinnt starfi yfirþjálfara um margra ára skeið en hann hefur óskað eftir að láta af störfum sem yfirþjálfari auk þess sem hann hefur lokið hlutverki sínu sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla. Jón Þór hefur verið afar farsæll í þessum mikilægu störfum. Um störf sín hjá Knattspyrnufélagi ÍA segir Jón Þór :
“Tíminn hjá knattspyrnufélagi ÍA hefur verið ákaflega ánægjulegur. Ég vil þakka fyrir þau tækifæri sem ÍA hefur gefið mér, það hefur verið sannkallaður heiður að fá að þjálfa hjá mínu uppeldisfélagi. Ég er einnig mjög stoltur af því að hafa fengið að koma að þeirri uppbyggingu og framför sem hefur átt sér stað hjá ungum leikmönnum ÍA undanfarin ár. Ég vil þakka stjórnarmönnum, starfsfólki, þjálfurum og síðast en ekki síst leikmönnum og yngri iðkendum samstarfið. Að lokum vil ég óska ÍA góðs gengis.”
Knattspyrnufélag ÍA þakkar Jóni Þór fyrir frábært starf undanfarin tíu ár. Á þeim tíma hefur Jón Þór unnið mikilvægt starf í hæfileikamótun ungra knattspyrnuiðkenda á Akranesi jafnframt því að starfa sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í fjögur ár og sem aðalþjálfari meistaraflokks karla á erfiðum tíma seinni hluta síðasta sumars. Félagið óskari Jóni Þór alls hins besta í þeim verkefnum sem hann tekur að sér í framtíðinni.
Knattspyrnufélag ÍA mun finna starfi yfirþjálfara farsælan farveg innan félagsins á næstu vikum.
Akranesi 2. nóvember 2017
Knattspyrnufélag ÍA