„Ég hlakka til að taka þátt í þessu spennandi verkefni. Hugmyndin varð til eftir samtöl milli mín, Leynis og GKG. Markmiðið er að búa til enn betra íþróttastarf hjá Leyni og nýta þá reynslu sem ég hef fengið frá frábæru starfi sem unnið er í GKG. Það er nýtt að klúbbar taki upp slíkt samstarf og ættu báðir klúbbar að njóta góðs af því að koma saman að þessu verkefni,“ segir Birgir Leifur Hafþórsson sem mun stýra barna, – unglinga og afreksstarfi Golfklúbbsins Leynis sem íþróttastjóri klúbbsins samhliða því að leika sem atvinnukylfingur fyrir GKG.
Birgir Leifur, sem verður 41 árs á þessu ári, þekkir vel til á Akranesi þar sem hann ólst upp og hóf sinn golfferil. Birgir Leifur er sjöfaldur Íslandsmeistari í golfi og fagnaði sigri á Íslandsmótinu í fyrra á Jaðarsvelli. Keppinsferlinum er alls ekki lokið og mun Birgir Leifur leika sem atvinnumaður á næst sterkustu atvinnumótaröð Evópu undir merkjum GKG á þessu ári.
Hef alltaf haft áhuga á að stýra slíku verkefni hjá golfklúbb. Ég hef komið að uppbyggingarstarfinu hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Þar á bæ hafa menn sett ný viðmið fyrir aðra klúbba. Birgir segir að GKG sé með stærsta barna og unglinga starf Íslands og það verði gott að geta leitað í smiðju GKG við uppbygginguna á Akranesi.
„Það er enginn vafi að ég mun nýta mér þá þekkingu hjá Leyni enda er GKG í fremstu röð á þessu sviði. Hjá GKG hef ég lært mikið og forsvarsmenn klúbbsins og klúbbfélagar hafa stutt vel við bakið á mér frá árinu 2003 þegar ég gekk í raðir GKG. Tengin mín verður áfram sterk við GKG enda mun ég keppa áfram fyrir klúbbinn. Ég sé bara tækifæri í því að geta aukið samstarfið á milli þessara tveggja klúbba. Það getum við gert með ýmsum hætti í gegnum barna – og unglingastarfið.“
„Í viðræðum mínum við Leyni þá fann ég að þar ríkir metnaður til þess að gera enn betur. Klúbburinn hefur gríðarlega góða aðstöðu yfir sumartímann til æfinga og aðgengi fyrir yngri kylfinga að Garðavelli er mjög gott. Það eru því mikil tækifæri fyrir alla aðila að búa til skemmtilega umgjörð um uppbyggingarstarfið – sem og afreksstarfið.“
Birgir Leifur lauk námi í PGA golfkennaraskólanum á Ísland árið 2012 og er því með PGA kennara réttindi.
„Fyrsta árið verður áhugavert og spennandi þar sem við þurfum að finna lausnir á ýmsum verkefnum sem eru framundan. Ég mun stýra þessu samstarfsverkefni samhliða því að leika sem atvinnumaður fyrir Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar. Ég fæ góða aðila með mér sem taka að sér ákveðna hópa í barna – og unglingastarfinu hjá Leyni. Þrátt fyrir að ég verði töluvert erlendis við keppni á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu þá mun ég vera með puttann á púlsinum í starfinu í gegnum þá tækni sem er í boði í dag. Ég ætla að koma með ferska hluti inn í starfið og hugsa út fyrir kassann,“ segir Birgir Leifur Hafþórsson.
Viðtal: Sigurður Elvar Þórólfsson