Drífa Harðardóttir hefur verið valin badmintonkona Akraness 2016 og er því í kjörinu um Íþróttamann Akraness 2016. Drífa æfir og keppir í Danmörku en þegar hún spilar á Íslandi er það undir merkjum ÍA. Drífa varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik í meistaraflokki í vor, annað árið í röð. Drífa hefur orðið Íslandsmeistari 8 sinnum, alltaf fyrir ÍA. Hún er eina konan sem hefur orðið Íslandsmeistari í meistaraflokki fyrir ÍA. Hún á 3 titla í tvíliðaleik og 5 titla í tvenndarleik. Í hvert sinn sem Drífa kemur til Íslands kemur hún á æfingar hjá félaginu og leiðbeinir krökkunum og spilar við þau. Hún er frábær fyrirmynd innan vallar sem utan.
Badmintonfélagið hélt Íslandsmót unglinga í mars, í tilefni af 40 ára afmæli félagsins. Máni Berg Ellertsson varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik U11, Brynjar Már Ellertsson varð Íslandsmeistari í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik U15, Harpa Kristný Sturlaugsdóttir varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik U17, Úlfheiður Embla Ásgeirsdóttir varð Íslandsmeistari í einliðaleik og tvíliðaleik U17.
Alls unnust 8 Íslandsmeistaratitlar á árinu. ÍA átti fulltrúa á næstum öllum mótum ársins og stóðu keppendur sig mjög vel. Félagið átti líka marga krakka í úrtaks- og landsliðshópum á árinu. Úlfheiður Embla Ásgeirsdóttir fór með U17 landsliðinu á Evrópumót landsliða og einstaklinga, það var haldið í Póllandi.