ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Árgangur 1985

Árgangur 1985

02/11/15

#2D2D33

Það styttist óðum í að flautað verði til leiks í Árgangamóti ÍA en það mun fara fram 14. nóvember næstkomandi en leikið verður í Akraneshöllinni. Á hverju ári bætast við ný andlit með nýjum árgöngum en í þetta skiptið munu nýliðarnir karlamegin verða hinn glæsilegi árangur 1985.


Á næstu dögum munum við taka púlsinn á nokkrum fyrirliðum árganganna en ætlum að nýta tækifærið og byrja á léttu spjalli við nýliðana en þar fer fremstur í annars föngulegum hópi leikmanna, Þórður Már Gylfason.

Við tókum Dodda tali og byrjuðum við á því að spyrja hann hvernig staðan væri á árgangnum og hvort hans menn kæmu ekki vel undirbúnir til leiks:
„Gott að þú minnist á undirbúninginn því við leikmennirnir höfum einmitt rætt það örlítið á sameiginlegri fésbókarsíðu okkar hvort við þyrftum ekki að fara hefja einhverjar æfingar en það hefur nú ekki náð neitt lengra en það. Enda svo sem engin ástæða til þar sem allir leikmenn liðsins eru það hæfileikaríkir og flottir knattspyrnumenn. Nokkrir okkar náðu sér í sjúkdóminn er kallast á lækna máli „lung syndrome“ og virkar því miður þannig að við fáum aukinn púls og hjartslátt við of mikla orkueyðslu. En árgangurinn er engu að síður vel mannaður með fullt af mönnum til skiptana þannig að ég kvíði engu.“


Mun 85“ árgangurinn stilla upp sterku liði í frumrauninni?
„Jájá, svona hæfilega bara. Við þurfum svo sem ekkert að mæta með okkar sterkasta lið í fyrsta mót. Stjórn Árgangsmótsins er búin að renna hýrum augum á þessa þrjá árganga sem eru að detta inn næstu þrjú ár, 85“, 86“ og 87“ og þá fyrst þurfum við að reyma skóna, girða okkur og vera tilbúnir þegar yngri skólabræður mæta til leiks. En fyrsta árið er nú frekar þægilegt sýnist mér á öllu. Það eru ansi sterkar líkur að okkar riðill verður svokallaður „dauðariðill“.


Hvað myndirðu segja að væri leynivopn 85“ árgangsins?
„Undirbúningur mótsins hófst í 3.flokki en þá ákvað megin þorri hópsins einfaldlega að hætta að æfa. Launakjör knattspyrnufélagsins voru ekki það góð á þeim tíma að það væri þess virði að standa í þessu lengur. Við ákvöðum að koma bara sterkir í Árgangsmótið í staðinn. Þetta varð til þess að takmarkað leikjaálag hefur verið á hópnum. Leikmennirnir voru ekki að taka að sér einhver óþarfa sjálfboðaliðasérverkefni fyrir KSÍ og hunsuðu allir leikmenn árgangsins unglingalandsliðsleiki. Andri Júl lét reyndar plata sig á varamannabekkinn með U21 og fékk að sprikkla í einn leik í 13 mínútur. Það mál var tekið upp á Árgangsmóti og Andri sá að sér og gaf ekki kost á sér aftur. Andri var í kjölfarið settur í 1 árs bann frá Árgangsmótinu og tekur það út þetta árið. Ég myndi því segja að strangur agi og takmarkað leikjaálag muni fleyta okkur í komandi móti.“

 

Hver myndirðu segja að væri hættulegasti leikmaður 85“ árgangsins og hvers vegna?

„Guðjón Jóhannesson er maðurinn. Sá eini sem gat sparkað almennilega í boltann í sinni ætt. Leikskilningur, ristaspyrnur og hugarfar meistarns gerir hann að lykilleikmanni árgangsins. Guðjón hafði það umfram sína ættingja að hann var öflugur á fleiri vígstöðum. Á meðan skyldfólk hans hélt áfram að rembast í boltanum þá setti Gaui í hinn heilaga stól Counter Strike spilarans og vann síðar til fjölda verðlaun á þeim vettvangi.“

Hvaða árgang hræðist þið mest að mæta og hvers vegna?
„Við erum búnir að velta þessu mikið fyrir okkur. Það að vera nýliðar þá óttumst við það að það verði ekki neitt pláss í karlariðli og að við verðum settir í kvennariðil. Það yrði algjört rothögg fyrir okkur þar sem kvennaliðin eru talsvert sterkari en karlaliðin í þessu móti. Algjört hörmungarástand mundi skapast í Akraneshöllinni ef árgangur karlaliðs 1985 mundi mæta sameginlegu kvenna liði 1986, 1985 og 1984 í sjálfum úrslitaleik mótsins. Sennilega þyrftum við að gefa leikinn.“

Eru menn ekki annars fullir tilhlökkunnar fyrir fyrsta árgangamótið?
„Við erum það svo sannarlega, þetta verður ekkert nema veisla. Líklegt er að besti leikmaður mótsins komi úr sigurliðinu, bara spurning hver verður fyrir valinu. Markahæstur verður sennilega Hinnrik Mattíhasar, háttvísisverðlaunin mun líklegast falla í skaut Viðars Freys Viðarssonar og þeir Haukur Ármannsson og Sigurkarl Gústavsson munu etja kappi um stoðsendingartitilinn. Við hinir bara verðum duglegir að mata þá. Lokahófið verður á endanum það sem stendur upp úr á deginum. Ég hvet leikmenn annarra árganga að taka með sér myndavél um kvöldið til þess að festa á filmu minningar og fallegar myndir af leikmönnum í árgangi 1985. Myndirnar mætti endilega senda á inboxið mitt á fésbókinni.“ sagði Doddi að lokum í þrælskemmtilegu samtali við vefsíðu félagsins.

Við höldum áfram að telja niður með viðtölum við fleiri fyrirliða á næstu dögum og hvetjum væntanlega þátttakendur til þess að taka daginn frá og fjölmenna á mótið sem og á lokahófið um kvöldið.

Edit Content
Edit Content
Edit Content