ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Árangursríkt samstarf

Árangursríkt samstarf

21/05/18

#2D2D33

Eins og flestir Skagamenn þekkja hefur Knattspyrnufélag ÍA teflt fram sameiginlegu liði með Knattspyrnufélagi Kára í 2. flokki karla nú um árabil. Með þessum hætti hefur verið auðveldara að flytja leikmenn milli félaganna og það hefur því fjölgað þeim ungu leikmönnum sem fá tækifæri til þess að spila meistaraflokksfótbolta – reyna sig með þeim sem eldri eru. Að sama skapi hefur ÍA gefist kostur á að lána leikmenn sem eru að koma til baka úr meiðslum til Kára þar sem þeir hafa getað náð sínu fyrra formi í liði í lægri deild.

Það er óhætt að segja að þetta hafi reynst vel. Tryggvi Hrafn Haraldsson lék fyrir Kára fyrri hluta árs 2016, var tekinn inn í meistaraflokkshóp ÍA í júní sama ár og farinn erlendis í atvinnumennsku rétt rúmu ári síðar. Einnig má geta þess að í byrjunarliðshópi meistaraflokks ÍA sem sigraði Hauka 3-1 í Inkassodeildinni í síðasta leik eru 5 leikmenn sem hafa leikið samtals 45 leiki fyrir Kára.

Að sama skapi hefur Kári boðið upp á góðan farveg fyrir þá leikmenn sem ganga uppúr 2. flokki, hafa ekki náð að vinna sig inn í meistaraflokkshóp hjá ÍA en brenna samt sem áður fyrir áframhaldandi knattspyrnuiðkun.

Nú á dögunum var svo undirritaður samstarfssamningur við Skallagrím í Borgarnesi, sem leikur í B-riðli 4. deildar um að nú teflir 2. flokkur fram sameiginlegu liði ÍA/Kára/Skallagríms. Á lokadegi félagaskiptagluggans höfðu jafnframt sautján strákar í 2. flokki félagaskipti úr ÍA yfir í Skallagrím og eru því gjaldgengir í 4. deildinni í sumar.

Möguleikarnir hafa því aldrei verið fleiri fyrir unga leikmenn á Skaganum til að vaxa, læra og koma sér á framfæri sem knattspyrnumenn.

Edit Content
Edit Content
Edit Content