Fjórir iðkendur frá hnefaleikafélagi Akraness tóku þátt á einu stærsta áhugamannamóti í Evrópu sem haldið var í Gautaborg dagana 2-4 nóvember. Þeir Hróbjartur Árnason, Arnór Már Grímsson, Gísli Kvaran og Marínó Elí Gíslason Waage voru hluti af 35 manna íslensku liði og voru þátttakendur frá Íslandi í öllum aldursflokkum, sá yngsti 12 ára. Skagamennirnir mættu allir sterkum andstæðingum og skemmst er frá að segja að allir þurftu að lúta í lægra haldi eftir harða baráttu og þar með úr leik. Aldrei hefur jafn stór hópur hnefaleikakappa farið til þátttöku á á erlendri grundu en á mótinu voru um 600 þátttakendur. Ferðin var vel heppnuð þrátt fyrir úrslitin en strákarnir okkar eru reynslunni ríkari eftir þessa för. Framundan er hnefaleikamót á vegum HR/Mjölnis í Reykjavík þar sem strákarnir okkar munu allir stíga aftur í hringinn.