Fulltrúar Akraneskaupstaðar hafa undirritað viljayfirlýsingu þess efnis að bærinn verði fyrsta íþróttasveitarfélag Íslands.
Eins og fram kemur á vefsíðu Sambands Íslenskra Sveitarfélaga mun Akraneskaupstaður halda áfram að byggja ofan á þær styrku stoðir sem fyrir eru í bæjarfélaginu og setja íþróttir barna- og ungmenna og uppbyggingu þeirra ásamt afreksíþróttum á oddinn. Á undanförnum árum hefur sveitarfélagið byggt fjölmörg ný íþróttamannvirki og eru uppi áform um enn frekari uppbyggingu og endurbætur
Akranes er fyrsta frumkvöðlasveitarfélag í innleiðingu á lögum um farsæld barna og inn í þá vinnu tengir sveitarfélagið íþróttir og er viljayfirlýsingin ákveðið framhald á þeirri vinnu. Nýr starfsmaður mun taka til starfa 1. desember og mun hann vinna að nýju verkefni sem heitir Farsæl frístund og byggir á því að öll börn með stuðning fá líka þann stuðning sem þau þurfa í frístundir með áherslu á hreyfingu.
Á ráðstefnunni Vinnum Gullið sem fram fór í Hörpunni 20. nóvember s.l. var meðal annars fjallað var um hvernig skapa megi umgjörð fyrir unga íþróttaiðkendur til að vaxa og dafna, jafnt í þéttbýli og dreifbýli. Jafna þarf tækifæri til íþróttaiðkunar á landsbyggðinni og fór Guðmunda Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness og meðlimur starfshóps um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks, yfir íþróttasveitarfélög og nýjar svæðisskrifstofur og íþróttasvæði með samlegð við önnur verkefni ríkis og sveitarfélaga, til að mynda farsæld og lýðheilsu.
Guðmunda Ólafsdóttir flutti erindi á ráðstefnunni Vinnum Gullið sem fram fór í Hörpunni.
Hægt er að horfa á ráðstefnuna í heild sinni á síðu Stjórarráðs Íslands
Það eru mörg tækifæri sem skapast fyrir sveitarfélög að skilgreina sig sem íþróttasveitarfélag. Gott íþróttastarf innan sveitarfélaga skiptir máli við val á búsetu einstaklinga til framtíðar.
Gaman þykir að segja frá því að Guðmunda skoraði í erindi sínu á ráðstefnunni á sveitarfélög að verða íþróttasveitarfélög með þessari frægu línu ,,Hver er tilbúin að stökkva á vagninn með okkur og vera fyrstur?”
Akraneskaupstaður hefur svo sannarlega gert það og væri gaman að sjá fleiri sveitarfélög feta í sömu spor.
ÍA óskar Akraneskaupstað til hamingju með að vera orðið fyrsta íþróttasveitarfélag landsins og má með sanni segja að það séu virkilega spennandi ,,íþrótta” tímar framundan á Skaganum.
Áfram Akranes!