Til að gæta ýtrustu varkárni og til að fara að tilmælum stjórnvalda og íþróttaforystu í landinu munu allar íþróttaæfingar aðildarfélaga ÍA falla niður hjá börnum á leik- og grunnskólaaldri á Akranesi fram til 23. mars, í samræmi við tilmæli frá ÍSÍ og UMFÍ. Á meðan verður unnið að nýjum útfærslum fyrir þennan aldurshóp með það í huga að koma æfingum af stað aftur.
Íþróttaæfingar 17 ára og eldri verða með takmörkunum sem útfærðar verða í samvinnu við aðildarfélög, Akraneskaupstað og framkvæmdastjórn ÍA.
Iðkendur ÍA og forráðamenn þeirra eru hvattir til að stunda útivist og hreyfingu á meðan þetta gengur yfir og draga þannig úr neikvæðum áhrifum veirunnar á íþróttalíf og heilsu Akurnesinga.
Með samstöðu munum við sigra þennan vágest og mun íþróttahreyfingin á Akranesi, hér eftir sem hingað til, fara að tilmælum yfirvalda.