Þann 1. október síðastliðinn undirrituðu Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri og Alma D. Möller, landlæknir, samning um innleiðingu Heilsueflandi samfélags á Akranesi. Með samningnum skuldbindur Akraneskaupstaður sig til að innleiða markmið Heilsueflandi samfélags á Akranesi í samráði við Embætti landlæknis og er 29. sveitarfélag landsins sem leggur í þessa vegferð.
Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélagið á Akranesi í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa og þar með að sveitarfélagið verði sjálfbærara, skilvirkara og eftirsóknarverðara til búsetu. Lögð er áhersla á að bæta lífsgæði íbúanna þar sem andleg og líkamleg heilsa er í öndvegi og stuðlar þannig að ánægðari, hamingjusamari og heilsuhraustari íbúum.
Starfshópur um innleiðingu Heilsueflandi samfélags á Akranesi hefur nú þegar tekið til starfa og er verkefnastjóri hópsins Hildur Karen Aðalsteinsdóttir frá Íþróttabandalagi Akraness. Í starfshópnum sitja að auki fulltrúar þeirra hópa í samfélaginu sem hafa mikinn snertiflöt við þjónustu sveitarfélagsins s.s. fulltrúi aldraðra og fulltrúi frístundastarfs.
Nánari upplýsingar um Heilsueflandi samfélag má finna á vef Embættis landlæknis
Fleiri myndir frá undirrituninni má sjá á vef Akraneskaupstaðar