Í gær, miðvikudaginn 8. maí mætti glæsilegur hópur yfir 300 sjálfboðaliða frá 13 aðildarfélögum ÍA og hreinsaði rusl í bænum okkar eða plokkuðu eins og það er kallað. Áhersla var lögð á opin svæði og strandlengju og var svæðum skipt á milli félaga þannig að ekkert svæði yrði útundan.
Það er skemmst frá því að segja að framtakið heppnaðist gríðarlega vel og skiluðu stoltir plokkarar miklu magni af rusli í ruslagáma Akraneskaupstaðar við lok vinnunnar.
Með þessu framtaki vill íþróttahreyfinging á Akranesi fegra umhverfið á Akranesi en um leið stuðla að hreyfingu, samveru og umræðu um samfélagslega ábyrgð hjá fólkinu okkar. Þegar íþróttahreyfingin stendur saman og vinnur að sameiginlegum verkefnum er aflið mikið og okkur allir vegir færir.
Íþróttabandalag Akraness og Akraneskaupstaður þakka öllum þeim sem tóku þátt fyrir þeirra framlag og vonast til að sjá sem flesta aftur á næsta ári.