ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagastelpur unnu stórsigur á liði Fjölnis

Skagastelpur unnu stórsigur á liði Fjölnis

31/07/18

#2D2D33

Meistaraflokkur kvenna spilaði sinn 12. leik í Inkasso-deildinni þegar liðið fékk Fjölni í heimsókn í Akraneshöll. ÍA var í baráttu í efri hluta deildarinnar en Fjölnir var í neðri hluta deildarinnar svo þetta var leikur sem Skagastelpur lögðu mikla áherslu á að vinna til að halda sig í toppbaráttunni.

Það kom líka í ljós frá fyrstu mínútu að ÍA ætlaði sér þrjú stig í leiknum. Strax á áttundu mínútu leiksins átti Maren Leósdóttir sendingu inn í vítateig Fjölnis þar sem Eva María Jónsdóttir stangaði boltann í markið með föstum skalla.

Skagastelpur héldu svo áfram að sækja að marki gestanna. Liðið skapaði sér nokkur ágæt færi en oft vantaði bara herslumuninn að bæta mörkum við. Á sama tíma átti Fjölnir erfitt með að komast í takt við leikinn og eiga færi sem ógnaði vörn ÍA að einhverju leyti.

Á 28. mínútu kom svo annað mark leiksins. Þá gaf Maren Leósdóttir boltann út á Kareni Þórisdóttur sem fékk boltann utarlega í vítateig Fjölnis og hamraði boltann í samskeytin. Fátt markvert gerðist eftir það í hálfleiknum og staðan var því 2-0 fyrir ÍA þegar flautað var til leikhlés.

Meira jafnræði var í leiknum í byrjun seinni hálfleiks. Fjölnir komst betur í takt við leikinn og reyndi að skapa sér færi en sem fyrr átti liðið í erfiðleikum með að fá annað en nokkur hálffæri sem náðu sjaldan að ógna ÍA. Sóknir Skagastelpna voru svo ekki alveg nógu markvissar framan af hálfleiknum og því var lítið um markverð færi.

Það var ekki fyrr en á 83. mínútu þegar þriðja mark leiksins leit dagsins ljós. Þá fékk Bergdís Fanney Einarsdóttir skotfæri af 25 metra færi og hún lét ekki bjóða sér það tvisvar heldur náði frábæru skoti sem fór efst í markhornið.

Leikurinn virtist svo vera að fjara út en í uppbótartíma fengu Skagastelpur hornspyrnu. Bergdís Fanney Einarsdóttir tók spyrnuna og Fríða Halldórsdóttir stökk hæst og skoraði fallegt skallamark.

Örskömmu síðar var leikurinn flautaður af og ÍA vann sanngjarnan og öruggan 4-0 sigur á Fjölni.