ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagamenn tóku Þórsara í kennslustund

Skagamenn tóku Þórsara í kennslustund

27/07/18

#2D2D33

Skagamenn spiluðu í kvöld við Þór frá Akureyri í 13. umferð Inkasso-deildarinnar. Bæði þessi lið voru í toppbaráttunni svo ÍA varð að vinna þennan leik til að missa efstu liðin ekki frá sér.

Leikurinn byrjaði frekar rólega af hálfu beggja liða og greinilegt var að hvorugt liðið vildi taka mikla áhættu í byrjun. Eftir því sem leið á hálfleikinn tóku Skagamenn þó af skarið og sóttu mun meira þó það næðist ekki að nýta þau færi sem sköpuðust. Þórsarar ógnuðu frekar lítið og náðu sjaldan að ógna sterki vörn ÍA.

Það var þó ekki fyrr en á 38. mínútu sem Skagamenn náðu að komast yfir þegar Arnór Snær Guðmundsson skoraði með föstum skalla eftir frábæra sendingu frá Þórði Þorsteini Þórðarsyni. Fátt gerðist eftir það og ÍA leiddi sanngjarnt 1-0 í hálfleik.

Í seinni hálfleik fóru Skagamenn loksins í gang og sóttu hart að marki Þórsara. Það skilaði marki strax á 49. mínútu þegar Hörður Ingi Gunnarsson gaf boltann inn í vítateig gestanna þar sem markamaskínan Arnór Snær Guðmundsson skoraði af öryggi einn og óvaldaður í markteig.

ÍA hélt svo áfram að skapa sér góð færi en þriðja mark leiksins fer í sögubækurnar á 65. mínútu. Þá tók Arnar Már Guðjónsson aukaspyrnu af 55 metra færi sem flaug yfir markvörð Þórsara og í mitt markið. Stórbrotið mark og ekki í fyrsta sinn sem Arnari Má dettur svona skot í hug sem skilar marki.

Þórsarar áttu enga von eftir þetta mark og fátt markvert gerðist í spili þeirra. Spilamennska Skagamanna var bara á öðru plani í seinni hálfleik og gestirnir voru í stökustu vandræðum með að fá ekki fleiri mörk á sig.

Á 79. mínútu kom svo fjórða mark leiksins þegar Bjarki Steinn Bjarkason tók hornspyrnu að marki Þórs þar sem Einar Logi Einarsson stökk hæst og hamraði boltann í netið. Staðan orðin 4-0 og ótrúlegt að bæði lið séu í toppbaráttu deildarinnar.

Síðasti naglinn í líkkistu Þórsara kom svo á 87. mínútu þegar Skagamenn eiga enn eina frábæra sókn. Boltinn berst til Bjarka Steins Bjarkasonar sem kemur honum á Steinar Þorsteinsson sem ætlar að skjóta á markið. Þórsarinn Ingi Freyr Hilmarsson verður fyrir því óláni að fá boltann í sig og af honum fór boltinn í netið, sjálfsmark.

Leikurinn endaði þannig 5-0 fyrir ÍA í leik þar sem Skagamenn voru bara mun betri aðilinn á öllum sviðum fótboltans, sérstaklega í síðari hálfleik.

Maður leiksins var valinn Arnór Snær Guðmundsson en hann fékk gjafabréf frá Golfklúbbnum Leyni í verðlaun. Með honum á myndinni er Þórir Björgvinsson, stjórnarmaður KFÍA.

Edit Content
Edit Content
Edit Content
Edit Content