Meistaraflokkur karla er um þessar mundir í æfingaferð á Campoamor á Spáni. Liðið mætti belgíska úrvalsdeildarliðinu Royal Antwerp í æfingaleik sem fram fór í dag.
Skagamenn vörðust fimlega í fyrri hálfleik og beittu skyndisóknum sem sköpuðu á köflum góð færi. Belgíska liðið var aftur á móti mun sterkari aðilinn og skoraði tvö góð mörk áður en flautað var til hálfleiks.
Í byrjun seinni hálfleiks skoraði Royal Antwerp sitt þriðja mark í leiknum. ÍA gafst þó ekki upp og hélt áfram að skapa sér ágæt færi. Það skilaði svo árangri á 78. mínútu þegar Garðar Gunnlaugsson skoraði gott mark.
Leikurinn endaði þannig 3-1 fyrir Royal Antwerp í leik þar sem strákarnir stóðu fyrir sínu gegn liði sem endaði í áttunda sæti belgísku deildarinnar.