Hvetjum alla til að koma á landsleik Íslands gegn Belgíu í körfubolta sem fram fer á Akranesi laugardaginn 29. júlí kl: 17:00 í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Fyrir leik verður Fan Zone á veitingastaðnum Gamla Kaupfélagið, um kl: 15:45 mun landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen kíkja við og spjalla við stuðningsmenn. Um að gera að koma við á Gamla Kaupfélagið og skapa góða stemmingu fyrir leik, hvetjum líka sem flesta til að koma gangandi á leikinn þar sem miklar framkvæmdir eru á Vesturgötunni og takmörkuð bílastæði. Miðaverð á leikinn er kr. 1.500.- fyrir 16 ára og eldri, kr. 500.- fyrir yngri. Akranesið mun sigla aukaferðir í tengslum við leikinn, ferjan fer frá Vesturbugt í Reykjavíkurhöfn kl: 15:00 og til baka eftir leik kl: 19:30 frá Akraneshöfn, siglingin tekur um 25 mín og það er tilboð kr 3.000 fram og til baka.
Gaman er að segja frá því að í Íslenska landsliðshópnum eru nokkrar Akranes og Vesturlands tengingar. Feður Pavels Ermolinskij og Kristofers Acox spiluðu báðir með ÍA, Pavel á sinn fyrsta meistaraflokksleik skráðan með ÍA ásamt því að hafa leikið með Skallagrím. Axel Kárason og Sigtryggur Arnar Björnsson spiluðu lengi með Skallagrím og Hlynur Bæringsson á að baki glæstan feril með Snæfell. Í þjálfarateymi Íslenska liðsins er svo Borgfirðingurinn Arnar Guðjónsson. Það er því um að gera fyrir vesturlandið og landsmenn alla að fjölmenna á Skagann á laugardaginn og styðja okkar menn til sigurs, áfram Ísland!