Meistaraflokkur karla mætti FH í tólftu umferð Íslandsmótsins sem fram fór við góðar aðstæður á Kaplakrikavelli.
Um erfiðan leik var að ræða á útivelli gegn Íslandsmeisturunum og það sást í byrjun leiks því FH voru öflugri og byrjuðu snemma að pressa mikið á vörn ÍA. Það skilaði svo marki á 18. mínútu þegar Robert Crawford skoraði með góðu skoti eftir klaufagang í varnarleik Skagamanna.
FH-ingar voru nú komnir á bragðið og héldu áfram að sækja stíft. Það skilaði öðru marki á 26. mínútu þegar Steven Lennon skoraði eftir undirbúning frá Atla Guðnasyni. Skagamenn komust betur í takt við leikinn eftir þetta og sköpuðu sér nokkur mjög færi undir lok hálfleiksins sem ekki náðist að nýta. Staðan í hálfleik var því 2-0 fyrir FH.
Skagamenn komu svo öflugir til leiks í upphafi seinni hálfleiks og náðu að skapa mörg góð færi, t.d. bjargaði markvörður FH á síðustu stundu eftir gott skot frá Garðari Gunnlaugssyni. En tækifærin voru ekki nýtt og eftir því sem leið á leikinn fjaraði undan sóknarleik ÍA.
FH beitti svo góðum skyndisóknum og skapaði sér ágæt færi sem misfórust. En það reyndi lítið á heimamenn eftir því sem leið á leikinn. FH sigldi svo þremur stigum í hús með öruggum 2-0 sigri.
Næsti leikur ÍA er svo gegn Val mánudaginn 31. júlí kl. 19:15 á Valsvellinum.