HVAÐ ER Í BOÐI

VALMYND

Skagamenn náðu í gott stig í Garðabæinn

Skagamenn náðu í gott stig í Garðabæinn

24/06/17

#2D2D33

Meistaraflokkur karla mætti Stjörnunni í áttunda leik Íslandsmótsins sem fram fór við ágætar aðstæður á Samsung vellinum.

Stjarnan byrjaði leikinn af miklum krafti og skapaði sér fjölda álitlegra færa eftir því sem leið á hálfleikinn. Úr einni slíkri sókn skoruðu heimamenn á 22. mínútu fyrsta mark leiksins þegar Guðjón Baldvinsson átti gott skot sem söng í netinu. Skagamenn beittu skyndisóknum og byggðu á sterkum varnarleik sem hafði verið veiki hlekkur liðsins á tímabilinu.

Liðið fékk nokkur hálffæri en náði sjaldan að ógna marki heimamanna mikið. Á markamínútunni frægu eða 43. mínútu komst Þórður Þorsteinn Þórðarson í veg fyrir sendingu leikmanns Stjörnunnar á vallarhelmingi ÍA. Boltinn hrökk innfyrir flata vörn Stjörnunnar þar sem Tryggvi Hrafn Haraldsson náði boltanum og skoraði virkilega gott mark af 30 metra færi framhjá markverði heimamanna, sem var hrikalega illa staðsettur fyrir utan vítateig. Staðan í hálfleik var því 1-1.

Seinni hálfleikur hófst svo illa því Stjörnumenn komust aftur yfir strax á 49. mínútu þegar Hilmar Árni Halldórsson skoraði beint úr aukaspyrnu. Þeir héldu svo áfram að sækja og skapa sér nokkur góð færi sem nýttust ekki.

Skagamenn komust svo mun meira inn í leikinn eftir því sem leið á hálfleikinn og á 84. mínútu kom jöfnunarmarkið þegar Þórður Þorsteinn Þórðarson tók aukaspyrnu sem fór inn í vítateig Stjörnunnar. Arnar Már Guðjónsson stökk hæst allra og skoraði með góðum skalla.

Undir lok leiksins fékk ÍA svo nokkur mjög álitleg færi til að skora sigurmarkið en ekki náðist að nýta þau færi. Leiknum lauk því með jafntefli 2-2.

Næsti leikur er svo bikarleikur gegn Leikni á Leiknisvelli mánudaginn 3. júlí kl. 19:15.

Edit Content
Edit Content
Edit Content
Edit Content