Í kvöld, fimmtudaginn 15. júní kl. 19:15, er von á hörkuslag í 6. umferð 1. deildarinnar þegar Selfossstelpur heimsækja stelpurnar okkar í meistaraflokki kvenna. Ekki aðeins af því að um er að ræða þau tvö lið sem féllu úr Pepsideildinni síðasta haust heldur líka af því að liðin eru gjörsamlega hnífjöfn eftir fyrstu fimm umferðirnar. 2 sigrar, 1 jafntefli, 2 töp, 11 mörk skoruð (sem er reyndar sami fjöldi og Skagastúlkur skoruðu á heilu tímabili í fyrra) og 6 mörk fengin á sig).
Eimskip og Sæferðir eru að hefja ferjusiglingar á milli Reykjavíkur og Akraness einmitt í dag. Þessi fyrirtæki eru aðalstyrktaraðilar leiksins og bjóða öllum frítt á völlinn. Einnig verða fríar kaffiveitingar í hálfleik í hátíðasalnum.
Að venju verða til sölu happdrættismiðar í hálfleik til styrktar stelpunum, að þessu sinni er vinningurinn í happdrættinu frá Rammagerðinni, og að sjálfsögðu ekki af verri endanum.
Það gleymdist að taka það fram í frétt um síðasta heimaleik að maður leiksins fékk glæsilega gjöf frá @home. Við biðjumst velvirðingar á þeim mistökum. Að þessu sinni hlýtur sú sem þykir standa sig best glaðning frá Cintamani.
Það er alveg klárt mál að stelpurnar okkar mæta ákveðnar til leiks og ætla sér að bæta þremur stigum á töfluna. Við hvetjum alla sanna Skagamenn til að mæta á völlinn og styðja við bakið á stelpunum.
Áfram ÍA!