Meistaraflokkur karla mætti Gróttu í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins sem fram fór við sæmilegar aðstæður á Norðurálsvelli.
Skagamenn hófu leikinn mun betur og ætluðu sér að skora snemma gegn 1. deildar liði Gróttu. Liðið fékk nokkur álitleg færi en ávallt vantaði herslumuninn upp við mark gestanna. Gróttumenn voru mjög þéttir til baka og sköpuðu sér lítið framan af. Staðan í hálfleik var því 0-0 í tilþrifalitlum leik.
Seinni hálfleikur hófst svo á svipuðum nótum og sá fyrri endaði. Lítið var um færi og gestirnir beittu skyndisóknum sem lítið kvað að. ÍA var mun meira með boltann en sóknarlotur liðsins voru ekki mjög hættulegar fyrir varnarmenn Gróttu.
Það var svo á 63. mínútu sem Grótta komst yfir en Ingólfur Sigurðsson skoraði þá beint úr aukaspyrnu, utarlega á vallarhelmingi ÍA. Skagamenn sáu fram á að þeir yrðu nú að fara að sækja og berjast af meiri krafti eða detta út úr bikarnum.
Liðið fékk nokkur góð færi en það var ekki fyrr en á 83. mínútu sem jöfnunarmarkið kom. Þá átti ÍA hornspyrnu, boltinn fór til Arnars Más Guðjónssonar sem skallaði til Tryggva Hrafns Haraldssonar, sem var staðsettur í markteig Gróttu. Hann náði góðum skalla yfir markvörð gestanna og staðan var því orðin 1-1.
Þrátt fyrir að ÍA ætti margar sóknir á síðustu mínútum leiksins fór boltinn ekki í netið og leiknum lauk því með jafntefli og framlenging óumflýjanleg. Skagamenn byrjuðu af krafti og á 95. mínútu skoraði Tryggvi Hrafn Haraldsson með góðu skoti þegar hann fylgdi eftir þrumuskoti Arnars Más Guðjónssonar sem markvörður Gróttu varði en missti svo boltann út í teiginn.
Það sem eftir lifði framlengingarinnar voru Skagamenn mun betri aðilinn og sköpuðu sér góð færi sem náðist ekki að nýta. Gróttumenn urðu manni færri á 115. mínútu þegar Halldór Kristján Baldursson var rekinn útaf fyrir sitt annað gula spjald. Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin en ógnuðu marki ÍA að litlu leyti.
Leiknum lauk því með sanngjörnum 2-1 sigri ÍA á Gróttu og staða í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins staðreynd. Þetta er í fyrsta sinn í tíu ár sem Skagamenn komast í 8-liða úrslitin í bikarkeppninni svo vonandi er að bikarævintýrið haldi áfram sem lengst.
Að vanda var valinn maður leiksins úr Skagaliðinu og að þessu sinni varð Tryggvi Hrafn Haraldsson fyrir valinu. Hann fékk að launum gjafabréf fyrir tvo frá Port 9 Vínbar.
Næsti leikur er svo gegn Breiðablik á Norðurálsvelli mánudaginn 5. júní kl. 19:15.