Meistaraflokkur kvenna mætti Þrótti R í annarri umferð Borgunarbikarsins sem fram fór við ágætar aðstæður á Norðurálsvelli.
ÍA byrjaði af krafti og strax á sjöundu mínútu skoraði Ruth Þórðar Þórðardóttir með góðum skalla eftir hornspyrnu. Stelpurnar héldu áfram að sækja og sköpuðu sér nokkur ágæt færi en herslumuninn vantaði til að bæta við marki. Þróttarar komust hægt og rólega inn í leikinn en sköpuðu sér ekki mörg færi. Staðan í hálfleik var því 1-0 fyrir ÍA.
Seinni hálfleikur hófst svo þar sem baráttan var í fyrirrúmi af hálfu beggja liða sem ætluðu að leggja allt undir í leiknum. Þróttarar jöfnuðu metin á 59. mínútu þegar Michalea Mansfield skoraði gott mark. ÍA sótti af krafti eftir það og uppskáru mark á 69. mínútu þegar Unnur Elva Traustadóttir skoraði með bylmingsskoti.
Þróttarar lögðu allt undir til að reyna að jafna metin undir lok leiksins og það tókst þeim á 89. mínútu þegar Sierra Marie Lelii skoraði eftir góða sókn. Leikurinn fór því í framlengingu.
Mikil barátta var í framlengingunni og sköpuðu liðin sér fá markverð færi. Allt var lagt undir og það skilaði marki fyrir Þrótt á 111. mínútu þegar Sierra Marie Lelii skoraði eftir skyndisókn. Þrátt fyrir sóknarlotur ÍA undir lokin tókst þeim ekki að jafna metin og Þróttur vann 2-3 eftir framlengingu.
Að vanda var valinn maður leiksins úr Skagaliðinu og að þessu sinni varð Hulda Margrét Brynjarsdóttir fyrir valinu.
Næsti leikur er gegn HK/Víking á Norðurálsvelli laugardaginn 27. maí kl. 14:00.