Fimmtudagskvöldið 6. apríl var 73. ársþing Íþróttabandalags Akraness haldið í hátíðasalnum á Jaðarsbökkum. Meðal dagskrárliða var afhending á bandalagsmerki ÍA fyrir framlag til íþróttastarfsins í gegnum árin. Alls voru 14 merki veitt en þar af komu 5 þeirra í hlut til eftirfarandi aðila sem öll hafa unnið mikilvæg störf fyrir Knattspyrnufélag ÍA í gegnum tíðina og eru flest enn að.
Þorbjörg Unnur Magnúsdóttir
Obba byrjaði að starfa fyrir félagið – eins og svo margir aðrir – sem foreldri og varð strax mjög virk í foreldrafélaginu og eftir að börnin voru hætt í fótbolta var Obba enn að.
Árið 2006 fór hún í stjórn kvennaboltans sem þá var Kvennanefndin þar sem félaginu hafði verið skipt upp í þrennt: Meistaraflokk og 2. flokk karla, Meistaraflokk og 2. flokk kvenna og svo Unglinganefnd. Fyrsta árið var hún meðstjórnandi í kvennanefndinni en formaður frá 2007-2009 þegar félagið var sameinað á ný. Einnig átti hún sæti í uppstillingarnefnd í tvö ár.
Obba var einstaklega vinnusöm og ósérhlífin öll þessi ár og gekk í öll þau verk sem til féllu. Ef hinir í stjórninni voru ekki nógu snöggir að taka boltann, gekk Obba í verkið. Hún sá um sjoppureksturinn í mörg ár. Þreif skúrinn á vorin og sá um að manna leikina, poppa í Bíóhöllinni – var með vinnuhóp um Konukvöldin, var í miðasölu, undirbúningi og frágangi eftir.
Hún gekk í allar fjáraflanir sem til féllu og oftar en ekki kröfðust þær einhverskonar vinnuframlags. Hún gerði einnig ýmsa samninga í tengslum við kvennaboltann, t.d. varðandi fæði og gistingu fyrir erlenda (og innlenda) leikmenn – en Obba sá um allt fyrir þær stelpur sem komu erlendis frá að spila með ÍA í hennar formannstíð. Hún tók þær algjörlega undir sinn verndarvæng og þær eiga góðar minningar frá hennar heimili, þar sem þær voru eins og heima hjá sér. Enn þann dag í dag er Obba að styðja þær og styrkja.
Jóhanna Hallsdóttir
Jóhanna Hallsdóttir hefur um árabil verið mjög dyggur stuðningsmaður bæði kvennaknattspyrnunnar á Akranesi sem og Sundfélags Akraness. Hanna byrjaði að starfa sem foreldri og varð strax mjög virk og starfaði einnig lengi eftir að börn hennar hættu að æfa.
Jóhanna var í stjórn Kvennanefndar Knattspyrjufélags Akraness nokkur ár fyrir 2004 þá gjaldkeri, einnig árin 2007 – 2009. Þá var hún líka varaformaður KFÍA 2009 – 2011 og í uppstillingarnefnd KFÍA 2014 – 2017. Hún hefur verið einn af máttarstólpum Heimaleikjahóps mfl kvenna með Dýrfinnu Torfadóttur í broddi fylkingar, en heimaleikjahópurinn hefur verið með hin rómuðu kaffihlaðborð í öllum heimaleikjum mfl kvenna sl 2 sumur. Hanna og Obba tóku við keflinu af hjónunum Guðrúnu Guðmundsdóttur og Jóhannesi Guðjónssyni í stjórn Kvennanefndar og héldu áfram því blómlega starfi sem fyrir var. Þá fóru glæsileg Kvennakvöld í hæstu hæðir og sprengdu utan af sér hvert húsnæðið hér í bæjarfélaginu. Nýjar og stærri fjáröflunarleiðir komu inn svo sem vörutalningar í stórmörkuðum, hreingerningar á nýjum stórum blokkum. Samstarfskonur Hönnu og Obbu eru sammála að þau ár sem þær voru með stjórnartaumana hafi verið einstaklega skemmtileg og árangursrík fyrir uppbyggingu kvennaboltans á Akranesi, enda skiluðu þær einstaklega góðu búi þegar Kvennanefndin var sameinuð KFÍA.
Hanna var í stjórn Sundfélags Akraness árin 1989 – 1992 bæði ritari og gjaldkeri þá var hún formaður SA veturinn 1998 til 1999. Sem foreldrafulltrúi sáu Hanna og Rósa Halldórsdóttir í mörg ár um skráningar á mjög stórt sundmót sem hét fyrst ÍA-Esso.
Hanna er ein af þessum tryggu einstaklingum, sem er sífellt boðin og búin að taka þátt í verkefnum til að auðga mannlífið hér á Akranesi.
Sigurður Jónsson
Sigurður Jónsson er einn allra besti knattspyrnumaður sem Ísland hefur gefið af sér. Sigurður hóf leik með meistaraflokki ÍA aðeins 15 ára gamall og var í sigurliðum ÍA árin 1982 1983, 1984, 1992, 1993, 1994 og 1995 en alls var Sigurður 6 sinnum Íslandsmeistari og fjórum sinnum bikarmeistari. Árið 1983 lék Sigurður með öllum karlalandsliðum Íslands sem líklega er einsdæmi í knattspyrnusögunni.
Á atvinnumannaferli sínum lék Sigurður með Sheffield Wednesday, Barnsley, Arsenal, Örebro og Dundee United.
Eftir að knattspyrnuferli Sigurðar lauk tók Sigurður við þjálfun og hefur m.a. þjálfað meistaraflokka FH, Víkings og Grindavíkur auk sænsku liðana Djurgarden og Enköping.
Frá árinu 2014 hefur Sigurður þjálfað á Akranesi þar sem að hann hefur sinnt þjálfum 2. og 4. fl. karla auk þess sem að hann sá um þjálfun Kára á árunum 2014 til 2016.
Þáttur Sigurðar í þeirri uppbyggingu sem á sér stað á meðal ungra knattspyrnumanna er risastór. ÍA á nú nær undantekningarlaust leikmenn í öllum landsliðum Íslands og á Sigurður ásamt öðrum þjálfurum félagsins stóran þátt í því.
Stefán Jónsson
Sumir hafa kallað Stefán hinn stafræna „Nonna Gull“. Stefán spilaði knattspyrnu með yngri flokkum félagsins en meiðsli bundu snemma enda á feril Stefáns. Á síðustu árum hefur Stefán unnið þrekvirki í að koma sögu Knattspyrnufélags ÍA inn á stafrænt form þannig að það sé aðgengilegt stuðningsmönnum félagsins í gegnum heimasíðu. Vinna þessi hefur að sjálfsögðu byggst á þeim grunni sem faðir hans Jón Gunnlaugsson hefur unnið í gegnum árin. Til viðbótar þeirri vinnu hefur Stefán tekið saman og komið á aðgengilegt form ótrúlegu magni mynda, frétta- og greinarskrifa auk myndabanda og tengt það við viðkomandi leikmenn og leiki þannig að til er gagnagrunnur um Knattspyrnufélag ÍA sem sem er á pari við það sem best er í heiminum. Eldhugar eins og Stefán eru nauðsynlegir öllum íþróttafélögum.
Hörður Kári Jóhannesson
Hörður Kári er forstöðumaður íþróttamannvirkja Akraneskaupstaðar. Hörður hefur verið góður liðsmaður fyrir íþróttahreyfinguna í gegnum tíðina bæði í störfum sínum sem forstöðumaður íþróttamannvirkja en einnig innan íþróttafélaganna á Akranesi þar sem hann hefur m.a. sinnt ábyrgðarstöfum fyrir golfklúbbinn Leyni. Hann hefur og sýnt búnaðarmálum sundfélagsins mikinn skilning og unnið ötullega að því að endurnýja nauðsynlegan keppnisbúnað í Jaðarsbakkalaug. Á íþróttasviðinu komst hann mjög ungur í keppnislið ÍA í meistaraflokki og lék sína fyrstu leiki rösklega 16 ára gamall. Leikjafjöldi hans með liðinu er 233 leikir og í þeim skoraði hann 73 mörk, varð fimm sinnum Íslandsmeistri í I deild og bikarmeistari þrívegis. Hann lék 1 A landsleik og sex unglingalandsleiki á sínum ferli. Hörður Kári hefur ávallt verið virkur í sínum störfum fyrir hreyfinguna og er sannur leiðtogi sem gaman er að veita bandalagsmerki ÍA fyrir góð störf í þágu íþróttamála.
Við óskum okkar fólki til hamingju með þessar viðurkenningu og þökkum að sjálfsögðu fyrir vel unnin störf fyrir félagið auk þess sem við óskum þess auðvitað að geta notið velvilja þeirra áfram.
Sigurður Jónsson, Þorbjörg Magnúsdóttir og Jóhanna Hallsdóttir
Stefán tekur við viðurkenningu frá Svövu Huld Þórðardóttur
Hörður Kári tekur við viðurkenningu
Allir þeir sem voru heiðraðir á þinginu