Knattspyrnufélag ÍA og IFK Norrköping hafa náð samningum um félagaskipti Arnórs Sigurðssonar. Arnór er 17 ára, fæddur 1999, og var þegar búinn að stimpla sig inn í hið unga lið skagamanna í Pepsideild karla. Nú er hins vegar ljóst að hann færir sig um set þar sem hann hefur skrifað undir fjögurrra ára samning við sænska félagið.
Arnóri var boðið á reynslu hjá IFK Norrköping síðasta haust og fór hann einnig í æfingabúðir liðsins í Portúgal í byrjun þessa árs.
“Við erum gríðarlega ánægðir fyrir Arnórs hönd með þetta stóra skref á hans ferli. Arnór hefur unnið markvisst í sínum málum og á þetta svo sannarlega skilið. Það hefur verið gríðarlega gaman að sjá hann eflast síðan hann fór að æfa reglulega með meistaraflokk og sérstaklega nú í vetur þar sem hann hefur tekið miklum framförum. Það verður spennandi að fylgjast með framgöngu hans í Svíþjóð” segir Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA.
Arnór spilaði sinn fyrsta leik í deild í lokaleik tímabilsins 2015 gegn ÍBV rétt rúmlega 16 ára gamall en alls hefur hann spilað 25 leiki með meistaraflokk og skorað 2 mörk þar af 7 leiki í efstu deild.