Aðalfundur Hestamannafélagsins Dreyra var haldinn 30. nóvember s.l. í félagsheimili hestamanna á Æðarodda.
Á fundinum var farið yfir helstu atriði í starfi félagsins, breytingar á lögum félagsins samþykktar, kosið í stjórn og nefndir ásamt hefðbundnum aðalfundarliðum og að sjálfsögðu rætt um reiðhallarmál. Ágæt mæting var á fundinn og ánægjulegt að sjá hversu margir láta sig starf félagins varða.
Þá var tilkynnt að Jakob Svavar Sigurðsson hefði verið valinn sem íþróttamaður félagsins fyrir árið 2016 en hann átti gott keppnisár og var klárlega einn af knöpum ársins í heimi hestamennskunar. Ester Þóra Viðarsdóttir var valin efnilegasta ungmennið og tók hún við viðurkenningu á fundinum. Ester Þóra, sem er 13 ára, hefur sýnt miklar framfarir á árinu í keppni hestaíþrótta og keppti m.a á Landsmótinu á Hólum með ágætum árangri.
Ester Þóra Viðarsdóttir. Efnilegasta ungmenni Dreyra árið 2016
Jakob Svavar Sigurðsson er Íþróttamaður Dreyra 2016. (Myndin tekin á uppskeruhátíð Landsambands Hestamanna í nóvember s.l þegar hann var valinn gæðingaknapi ársins)
Búið er að uppfæra nafnalista í nefndum fyrir árið 2017 hér hægra megin á síðunni. Einnig mun ársskýrsla 2016 birtast í – Fréttabréf og fundargerðir- hægra megin.
Vegna reiðhallarmála.
Eins og félagsmönnum Dreyra er kunnugt þá sendi stjórn Dreyra inn erindi til Bæjarstjórnar Akraness í haust um aðkomu og fjárstyrk vegna byggingar reiðhallar í Æðarodda. Á fundi bæjarstjórnar þann 13. desember s.l þar sem fjárhagsáætlun 2017 var samþykkt er ekki gert ráð fyrir reiðhallarbyggingu árið 2017 né heldur var gert ráð fyrir slíkri byggingu í 4 ára áætlun og voru það okkur sem unnið hafa í þessu máli mikil vonbrigði. En hins vegar virðist vera að fæðast ljós í myrkrinu því að í fundargerð bæjarráðs þann 15. desember s.l segir ” Erindi Hestamannafélagsins Dreyra þar sem óskað er eftir kostnaðarþátttöku Akraneskaupstaðar í byggingu reiðhallar/skemmu. Bæjarráð vísar til samþykktrar fjárhagsáætlunar vegna ársins 2017 en samkvæmt henni er ekki gert ráð fyrir fjárveitingu frá Akraneskaupstað vegna byggingar reiðhallar. -Bæjarráð vísar erindinu (Reiðhöll/skemma) til skipulags- og umhverfisráðs vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar vegna ársins 2018 og þriggja ára áætlunar 2019-2021.”
🙂 Þannig að það er von og vonandi nær málflutningur okkar hestamanna, um hversu gífurlega brýn nauðsyn það er að hafa góða inniaðstöðu, í gegn á nýju ári hjá þeim sem ákvörðunarvaldið hafa.
Hrafn Einarsson og Sigurður Arnar Sigurðsson munu halda áfram að vinna í undirbúningi i reiðhallarmálum næsta árið.
Stjórn Dreyra þakkar félagsmönnum starfið á liðnu ári og óskar þeim hóflega en klárlega gleðilegs nýs árs.
áh