ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skemmtilegt ferðalag

Skemmtilegt ferðalag

16/02/15

#2D2D33

‘-og góð 2 stig heim

Dagurinn var tekinn snemma í gær. Fyrir höndum var ferðalag til Akureyrar þar sem leikur Þórs og ÍA var á dagskrá í 1. deildinni í körfubolta. Þar sem við búum á Íslandi þar sem allra veðra er von var ákveðið að fara fyrr af stað en seinna, önnur ferðin okkar norður þetta tímabilið og við fengum svo sannarlega að kynnast kröftum veðurguðanna í fyrri ferðinni. Ferðin norður núna gekk nokkuð vel og liðið mætt tímanlega í höfuðstað norðurlands.

(Hér má sjá samanburðar myndir úr ferðinni í desember og svo ferðinni nú í febrúar)

Því var tekið smá rölt um miðbæinn til að rétta aðeins úr sér eftir 5 tíma ferðalag, með stoppum reyndar, og svo var aðeins stoppað í Glerártorgi. Síðan lá leiðin beint í íþróttahús Síðuskóla, með hefðbundnum krói sem líka var reiknað með í tímsetningu borttfarar frá Akranesi.

Oftar en ekki hafa leikmenn ÍA byrjað leikina fyrir norðan frekar hægt en þeir voru staðráðnir í að breyta því í þessum leik. Byrjuðu vel og skoruðu fyrstu körfuna en heimamenn leiddu að loknum fyrsta leikhluta 18 – 16.Annar leikhluti byrjaði á sömu nótum, Þór náði 8 stiga forystu fljótt en Skagamenn voru ekkert á þeim buxunum að hleypa norðanmönnum of langt frá sér og söxuðu smátt og smátt á forskotið og breyttu stöðunni úr 30-24 fyrir Þór í 30-35 fyrir ÍA þegar flautað var til hálfleiks.

Þriðji leikhluti var jafn líkt og sá fyrsti. Skagamenn byrjuðu af krafti og náðu mest 14 stiga forystu en Þórsarar neituðu að gefast upp en leikmenn ÍA héldu dampi og bættu aftur í og unnu leikhlutann 18-21 og fóru með þægilegt 8 stiga forskot inn í loka leikhlutann. Bæði lið spiluðu flotta vörn í fjórða leikhluta en norðanmenn létu gestina hafa fyrir hlutunum og þegar um 4 mínútur voru eftir af leiknum var munurinn kominn niður í 5 stig og þá tók ÍA leikhlé. Eftir leikhléð fóru gestirnir að spila sinn rétta leik aftur, vörnin hélt vel og Þórsarar urðu fyrir því óláni að Frisco meiddist í baráttu um frákast við Fannar og þurfti að fara af leikvelli með skurð og þurfti að fara af velli til aðhlynningar. Leikhlutinn vannst að lokum með 16 stigum ÍA gegn 13 stigum Þórs sem þýddi að lokatölur leiksins urðu 61-72 fyrir ÍA.

Það má segja að liðsheildin hafi unnið þennan leik fyrir ÍA, Zachary var að vanda mikilvægur með 26 stig, Fannar var öflugur með 19 stig og 8 fráköst, Elli skilaði sínum mínútum vel með 9 stig og 8 fráköst og varnarleikur Ómars á Frisco var virkilega góður.Hjá Þórsurum var það sama upp á teningnum, liðsheildin var fín, Einar Ómar var stigahæstur með 17 stig og Frisco var með 15 stig og 11 fráköst. Það er ekki hægt að sleppa því að minnast á frammistöðu hins 16 ára gamla miðherja Þórs, Tryggva Snæ Hlinason, en þessi 211 cm strákur skoraði 9 stig, tók 7 fráköst og varði 8 skot. Þessi strákur er rétt búinn að æfa körfubolta í rúmt ár eða svo þannig að það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu gríðarlegt efni í íslenskum körfubolta er að ræða hér og verður spennandi að fylgjast með honum komandi ár.

Nánari tölfræði úr leiknum má nálgast hér
Myndband um ferðalagið og leikinn má sjá hér

Minnum svo á Facebook-síðuna okkar.

Edit Content
Edit Content
Edit Content
Edit Content