ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

80. þing ÍA var haldið 18.04.

80. þing ÍA var haldið 18.04.

19/04/24

DSCF1316

80. þing ÍA var haldið í gær fimmtudaginn 18. apríl að Garðavöllum

Þingið var ágætlega sótt 70 fulltrúar áttu rétt á setu en 42 mættu, einungis vantaði fulltrúa frá einu félagi, öll önnur sendu fulltrúa þó ekki væri full setið.

Fráfarandi formaður Hrönn Ríkharðsdóttir ávarpaði þingið og setti það.

Þingforseti var kjörinn O. Pétur Ottesen og stýrði hann þinginu með miklum sóma og skemmtilega.

Þingið tók aðeins 1 klukkustund og 40 mínútur þó svo að lagabreytingar væru kynntar og samþykktar ,eins voru nokkrar reglugerðir samþykktar. M.a. var í  fyrsta skipti í sögu ÍA sem reglur um úthlutun á lottófjármunum voru settar.

Gestir frá UMFÍ Guðmundur Sigurbergsson og ÍSÍ Hildur Karen Aðalsteinsdóttir ávörpuðu þingið og sendu ÍA góðar kveðjur frá sínum stjórnum og starfsfólki.

Þetta var sögulegt þing ekki bara fyrir reglugerð um fjárúthlutun heldur einnig var fyrsta gullmerki UMFÍ afhent innan ÍA.

Fráfarandi formaður ÍA Hrönn Ríkharðsdóttir hlaut gullmerki ÍSÍ og gullmerki UMFÍ á þessu þingi.

Hrönn hefur setið í stjórn ÍA frá árinu 2020 og formaður frá 2022, stjórn og starfsmenn ÍA þakka Hrönn innilega fyrir samstarfið og senda henni bestur þakki fyrir hennar framlag í þágu íþróttahreyfingarinnar á Akranesi. Óskum við henni innilega til hamingju með gullmerkin.

Fjórir einstaklingar voru sæmdir bandalagsmerki ÍA að þessu sinni og er þeim þakkað það góða starf sem þau hafa innt af hendi í þágu íþróttamála á Akranesi. Innilega til hamingju öll.

Berglind Helga Jóhannsdóttir – Golfklúbburinn Leynir

Halldór B. Hallgrímsson – Golfklúbburinn Leynir

Oddur Pétur Ottesen – Golfklúbburinn Leynir

Stefán Gísli Örlygsson – Skotfélag Akraness

Samfélagsskjöldur ÍA var afhentur í þriðja sinn, er hann afhentur því fyrirtæki sem stjórn ÍA velur úr þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem styrkja og styðja við bakið á íþróttafélögum á Akranesi.

Í ár var það Vinnustofa Bjarna Þórs listamanns. Bjarni Þór hefur stutt vel við bakið á þeim íþróttafélögum sem leita til hans með gjafir í margskonar fjáraflanir. Það eru ófáar myndirnar eftir Bjarna Þór sem hanga á veggjum bæjarbúa sem happdrættisvinningar, kvennakvöld, karlakvöld eða hvað það er sem fjáröflunin heitir alltaf er hann til í að gefa af sér.

Bestu þakkir Bjarni Þór fyrir þitt framlag.

ÍA sýndi í verki vel það góða samstarf sem komið er á milli íþróttahéraða á Vesturlandi og fékk fulltrúi UMFÍ tækfæri á því að afhenda gesta fulltrúa frá UDN sambandsmerki UMFÍ.

Þing UDN hafði verið kvöldið áður og var Guðrún Guðmundsdóttir sæmd sambandsmerki fyrir sitt framlag í sjálfboðastarfi fyrir UDN. Guðrún hafði ekki tök á því að mæta hjá UDN og er búsett á Akranesi, því var brugðið á það ráð að fá gefa smá pláss á ÍA þingi og afhenda þar.

Stjórn hlaut kjör með lófaklappi. Formsins vegna varð að kjósa formann og varaformann sérstaklega þó svo að einn frambjóðandi var í hvort embætti.

Gyða Björk Bergþórsdóttir Skagakona var kjörin nýr formaður ÍA.

Gyða Björk er fædd og uppalin á Akranesi, hún hefur setið í stjórn ÍA frá 2022 sem ritari stjórnar.

Emilía Halldórsdóttir var endurkjörin varaformaður, hefur hún setið í stjórn ÍA frá 2021 og gengt embætti varaformanns frá 2022. Óskum við þeim báðum til hamingju með kjörið.

Aðrir í stjórn gáfu öll kost á sér áfram og voru kjörin með lófaklappi. Til hamingju öll

Einn nýr tekur sæti í varastjórn ÍA og það er hann Breki Berg Guðmundsson. Bjóðum við hann velkominn í stjórn.

Enginn kvaddi sér hlóðs undir liðnum önnur mál og sleit því nýkjörin formaður þingi, áður en hún sleit þó þingi ávarpaði hún þinggesti og sagðist spennt að taka þetta nýja hlutverk að sér og þakkaði fyrir það traust sem henni væri sýnt.

Edit Content
Edit Content
Edit Content