Stuðningur fyrirtækja og einstaklinga er lykilatriði ef halda á uppi öflugu og góðu íþróttastarfi á Akranesi. Þriðja árið í röð sýna eigendur og starfsmenn Skagans hf. og Þorgeirs og Ellert hf. mikinn rausnarskap með því að styrkja íþróttahreyfinguna um 3 milljónir króna.
Síðastliðin tvö ár hefur samtals 6 milljónum króna verið úthlutað úr sjóði sem fyrirtækin stofnuðu til að bæta barna- og unglingastarf íþróttahreyfinganna, með sérstakri áherslu á forvarnargildi íþróttaiðkunar. Verkefnin sem fengið hafa styrk hafa verið ýmis konar, allt frá því að styrkja ungan afreksmann til keppni á stórmóti og til þess að stuðla að endurmenntun þjálfara. Sá styrkur sem nú er veittur mun einnig nýtast vel til að hlúa að grasrótinni í íþróttalífinu á Akranesi.
Fyrir hönd aðildarfélaga sinna þakkar ÍA enn á ný stórhug eigenda og starfsmanna Skagans og Þorgeirs & Ellerts en á næstu vikum verður auglýst eftir umsóknum frá aðildarfélögum ÍA í sjóðinn.