Meistaraflokkur kvenna spilaði fyrr í dag í undanúrslitum C-deildar í Lengjubikar kvenna. Leikurinn fór fram á KA – vellinum á Akureyri en spilað var gegn liði Hamrana. Leiknum lauk með sigri Skagastelpna 0 – 1 og var sigurmarkið sjálfsmark heimastúlkna.
Sigur Skagastelpna var sanngjarn og var okkar lið sterkari aðilinn allan leikinn þó liðið hafi kannski ekki átt sinn besta leik. Frekar kalt var á Akureyri í dag og virtust bæði lið eiga erfitt með að ná sér á strik. Mikið var um baráttu en minna um gott samspil. Hér var því um sannkallaðan vorleik að ræða.
Skagastelpur lönduðu eins og fyrr segir sigri og framundan er úrslitaleikur í Lengjubikarnum. Við fögnum því og vonum að stelpurnar nái aftur upp því góða samspili sem einkennt hefur liðið í vetur og í vor. Í úrslitaleiknum verður leikið gegn liði Keflvíkinga sem sigruðu lið Völsungs 0 – 2 fyrr í dag. Úrslitaleikurinn fer fram þriðjudaginn 1. maí n.k.