ÆFINGATÖFLUR

VALMYND

Skagamenn unnu öruggan sigur á ÍBV

Skagamenn unnu öruggan sigur á ÍBV

01/03/18

#2D2D33

Skagamenn mættu ÍBV í þriðja leik liðanna í Lengjubikarnum sem fram fór í Akraneshöll í kvöld en um frestaðan leik var að ræða frá síðustu helgi.

Skemmst er frá því að segja að ÍA stjórnaði leiknum í fyrri hálfleik og spilaði virkilega góðan fótbolta. Fyrsta mark leiksins kom strax á níundu mínútu en þá fékk Stefán Teitur Þórðarson boltann inni í vítateig ÍBV eftir sendingu frá Steinari Þorsteinssyni. Hann sneri varnarmann af sér og hamraði boltann í netið með glæsilegu skoti.

Skagamenn héldu áfram að eiga mun hættulegri marktækifæri en Eyjamenn náðu sjaldan að ógna marki ÍA að miklu leyti. Annað mark leiksins leit svo dagsins ljós á 38. mínútu þegar Hilmar Halldórsson og Stefán Teitur Þórðarson léku vel sín á uns Ólafur Valur Valdimarsson fékk boltann einn í vítateig gestanna og skoraði af öryggi.

Áður en flautað var til hálfleiks náðu Skagamenn að bæta sínu þriðja marki við en þá átti Steinar Þorsteinsson skot í stöng eftir góða sókn en Hilmar Halldórsson náði svo til boltans og skoraði í autt markið. Staðan því 3-0 fyrir ÍA í hálfleik.

Seinni hálfleikur var svo svipaður og sá fyrri. Eyjamenn náðu sjaldan að skapa sér markverð færi og vörn ÍA átti ekki í teljandi vandræðum með sóknarleik gestanna. Skagamenn héldu áfram að spila góðan fótbolta og skapa sér mörg góð færi sem misfórust.

Allt útlit var fyrir að ekkert mark yrði skorað í hálfleiknum en á 83. mínútu fékk Steinar Þorsteinsson boltann úti á kanti. Hann náði að gefa mjög góða sendingu yfir á Alexander Má Þorláksson sem skoraði af miklu öryggi.

Leikurinn endaði þannig með 4-0 sigri Skagamanna, sem var síst of stór miðað við gang leiksins og spilamennsku okkar manna í kvöld.

Edit Content
Edit Content
Edit Content